spot_img
HomeFréttirValur Old-Boys sigraði á Borgarnesmótinu 2012

Valur Old-Boys sigraði á Borgarnesmótinu 2012

Valsmenn unnu sigur á Old-Boys móti Skallagríms sem haldið var í Borgarnesi föstudaginn 24. febrúar sl. Valsmenn sem hafa unnið mótið fimm af síðustu sex skiptum mættu óvenju fáliðaðir en meiðsli og veikindi þynntu hópinn all verulega. Þeir sex sem mættu stóðu sig af stakri prýði innan vallar sem utan og voru að venju félaginu til sóma.
Leikið var gegn Fram, Molduxum og gestgjöfum Skallagríms og fóru leikar þannig að Valsliðið vann eins stigs sigur á Fram 20-21 eftir að Fram hafði leitt með 8 stigum í hálfleik. Gegn Molduxum náðu Valsmenn sínum besta leik og unnu öruggan sigur 42-34. Gegn Skallagrími náði Valur góðri forystu í hálfleik en Skallagrímsmenn vöknuðu heldur betur til lífsins í seinni hálfleik og settu þá sjö þrista – þar af fimm í röð! Leiknum lauk þó með sanngjörnu jafntefli 38-38 sem tryggði Val sigur á mótinu. Valsliðinu áskotnuðust einnig tvenn einsaklingsverðlaun en Hannes Birgir Hjálmarsson var valinn "Mikilvægasti leikmaðurinn" og Grímur Atlason (sem er nýliði í Old-Boys Vals ( var valinn "Besti miðherjinn"). Í lokahófi tengdu mótinu var skellt í hljómsveit en þar spiluðu Hannes, Grímur og Kristinn Kristjánsson nokkur vel valin blús og kántrý lög ásamt prímus mótor mótsins Indriða Jósafatsyni. Borgnesingar eru ávallt höfðingjar heim að sækja og er þeim enn og aftur þakkað fyrir frábært mót!
 
Mynd: Sigurlið Vals á Old-Boys móti Skallagrims 2012 með verðlaunagripinn góða.
Frá hægri: Sigurður Örn Sigurðarson, Jón Friðrik Hrafnsson, Grímur Atlason, Hannes Birgir Hjálmarsson, fyrirliði og þjálfari, Kristinn Kristjánsson og Ragnar Bjartmarz, varafyrirliði og aðstoðarþjálfari á mótinu.
  
Fréttir
- Auglýsing -