spot_img
HomeFréttirValur og KR í bikarúrslit unglingaflokks

Valur og KR í bikarúrslit unglingaflokks

Tveir undanúrslitaleikir fóru fram í unglingaflokki í kvöld þar sem Valskonur og KR piltar tryggðu sig inn í úrslitin. Valur lagði Keflavík í Vodafonehöllinni og KR hafði betur gegn Njarðvík í DHL-Höllinni í Vesturbænum.
Valur lagði Keflavík 58-49 og mæta því Snæfell eða Haukum í úrslitaleiknum í unglingaflokki kvenna en Snæfell og Haukar mætast næsta mánudag í Stykkishólmi. Valur hefur því slegið Keflavík út í unglinga- og stúlknaflokki þetta árið.
 
Þá fengum við senda þessa umfjöllun úr Vesturbænum í kvöld:
 
Umfjöllun frá leik KR og Njarðvíkur:
 
KR og Njarðvík mættust í undanúrslitaleiknum í bikarkeppni unglingaflokks í DHL-höllinni í kvöld. Liðin eru skipuð leikmönnu sem eru farnir að spila stóra rullu í meistaraflokkum síns félags og unglingalandsliðsmenn nánast í öllum stöðum. Vel var mætt á leikinn en um 150 manns voru í stúkunni auk áhorfenda heima í stofu en KR-tv sýndi leikinn beint.
 
Njarðvíkurstrákarnir byrjuðu betur og leiddu allan fyrri hálfleikinn og voru drifnir áfram á góðu framlagi frá mörgum mönnum en Elvar Friðriksson, Oddur Birnir Pétursson, Ólafur Helgi Jónsson og Maciej Baginski voru áberandi hjá þeim grænu sem leiddu 38-32 í hálfleik. Jens Valgeir Óskarsson lék ekki með Njarðvík í leiknum en hann er nýkominn úr botlangauppskurði. Hjá KR voru Martin Hermannsson og Kristófer Acox langmest áberandi í stigaskori en Egill Vignisson, miðherji KR liðsins, glímdi við ælupest og fann sig engan veginn og endaði með að hvíla allan seinni hálfleikinn.
 
Njarðvík hélt frumkvæðinu í seinni hálfleik þar sem Styrmir Fjeldsted fór að láta finna fyrir sér á póstinum og boltahreyfingin var góð hjá gestunum. Björn Kristjánsson fór að láta meira að sér kveða í seinni hálfleiknum og skiptist á að setja niður löng þriggja stiga skot og keyra sterkt á körfuna. Það var einmitt með einu slíku langskoti að hann jafnaði leikinn í 67-67 þegar skammt var eftir. Mikill barningur var á þessum tíma og menn mikið á línunni þar sem mönnum voru frekar mislagaðar hendur.
 
Oddur Kristjánsson kemur svo KR yfir 71-69 þegar um 40 sekúndur eftir og Njarðvík tekur leikhlé. Njarðvík nær ekki að nýta sóknina og KR heldur í sókn með um 30 sekúndur eftir, þeir nota klukkuna vel og Martin Hermansson finnur loks Huga Hólm Guðbjörnsson opinn undir körfunni sem leggur boltann ofan í og kemur KR liðinu yfir 73-69 og undir 10 sekúndur eftir. Aftur tekur Njarðvík leikhlé þar sem Maciej endar í erfiðu þriggjastigaskoti sem geigar og KR nær frákastinu og fer á línuna þar sem Oddur Kristjánsson innsiglaði 75-69 sigur KR í fjörugum og skemmtilegum bikarleik.
 
Mynd/ Tomasz Kolodziejski
Fréttir
- Auglýsing -