spot_img
HomeFréttirValur nálgast KR og Hauka óðfluga - þrír sigrar í röð

Valur nálgast KR og Hauka óðfluga – þrír sigrar í röð

Valur tók á móti Haukum í Iceland Express deild kvenna í kvöld og fann þar sinn þriðja deildarsigur í röð. Með sigrinum náðu Valskonur að minnka bilið milli sín, KR og Hauka niður í tvö stig nú þegar þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Baráttan um sæti í úrslitakeppninni er hörð og von á rafmagnaðri spennu síðustu þrjár umferðirnar. Hannes Birgir Hjálmarsson var í Vodafonehöllinni í kvöld og fylgdist grannt með gangi mála.
 
1. leikhluti
Liðin skiptast á að skora fyrstu mínúturnar og talsverður hraði er á leiknum í upphafi. Valur leiðir 9-6 eftir 2:30 mínútur. Talsvert er af mistökum hjá báðum liðum næstu mínútur en greinlegt er að dagskipun beggja þjálfara er að keyra hraðann upp. Valur leiðir 13-10 þegar 5 mínútur eru liðnar og leikurinn jafn.  Haukar taka leikhlé þegar 3:13 eru eftir af fjórðungnum og staðan 15-12 fyrir Val. Melissa Leichlitner smellir þristi þegar 2 mínútur eru eftir og kemur Val yfir 20-16. Bæði lið halda áfram að keyra upp völlinn í sókn og því hafa talsverð mistök átt sér stað hjá báðum liðum. Valsliðið virðist samt ráða betur við hraðann í leiknum og leiða 23-16 í lok leikhlutans.
Hjá Val er Melissa stigahæst með 10 stig en hjá Haukum Jence Ann Rhoads og Hope Elam (4 fráköst) stigahæstar með 6 stig hvor.
 
2. leikhluti
Leikhlutinn byrjar svipað þeim fyrsta, bæði lið missa boltann oft fyrstu mínúturnar og skiptast á körfum en Valsliðið er alltaf á undan og leiðir 27-18 þegar 8:17 mínútur eru eftir af fjórðungnum. Guðrún Ósk Ámundadóttir setur þrist og minnkar muninn í 27-23 en Guðbjörg Sverristóttir svarar með þristi og tveggja stiga körfu og eykur muninn í 9 stig 32-23 og 5:21 liðnar.
 
Melissa verður fyrir meiðslum og er borin af velli en hún virðist hafa snúið sig á fæti. Spurning hvernig Valsliðið bregst við því að missa hana útaf. Kristrún Sigurjónsdóttir setur þrist úr hægra horninu á sama stað og Guðbjörg gerði skömmu áður og Guðbjörg skorar úr hraðaupphlaupi þegar rúmar fjórar mínútur eru eftir og munurinn skyndilega orðinn 14 stig Val í vil. Signý Hermannsdóttir sendi æðilsega "battasendingu" á Lacey Simpson sem blokkar síðan Guðrúnu Ósk Ámundadóttur í tvígang en á svo slæma sendingu í kjölfarið og Haukar fá tækifæri til að minnka muninn sem ekki gengur. Valsliðið virkar mun sterkara í öðrum fjórðungi og Kristrún eykur muninn enn í 41-23 þegar 2:30 eru eftir. Haukar eru í vandræðum með að koma boltanum upp og Lacey Simpson stelur boltanum og bætir við 2 stigum Haukar klúðra enn einni sókninni og Lacey nær skoti um leið og leikhlutanum lýkur en hittir ekki og Valsliðið er með 20 stigs forystu, 43-23, í hálfleik.
 
Guðbjörg Sverrisdóttir var stigahæst Valskvenna með 13 stig, Melissa 10 og Lacey Simpson 8 stig, 10 fráköst og 5 varin skot! Valsliðið var mun betri aðilinn í öðrum leikhluta og vann leilhlutinn 20-7!
 
3. leikhluti
Valsliðið skorar fyrstu 4 stig seinni hálfleiks og eykur enn forystuna í 47-23. Haukum eru mislagðar hendur í sókninni til að byrja með en ná að stilla miðið og Guðrún Ósk setur þrist og minnkar muninn í 21 stig 49-28 þegar 7:30 eru eftir af öðrum leikhluta. Bæði lið missa boltann í gríð og erg næstu mínútur þangað til Hope Elam skorar og minnkar muninn í 18 stig 49-31 þegar 5 mínútur eru eftir. Íris Sverrisdóttir setur þrist og Hope skorar úr sniðskoti og setur þrist og munurinn skyndilega orðinn 14 stig 53-39 þegar 3;35 eru eftir. Valslið pressar stíft og stelur boltanum í tvígang en skorar einu sinni, Hope setur þrist þegar skotklukkan er að renna út en Hallveig Jónsdóttir skorar úr sniðskoti um leið og brotið er á henni og setur vítið að auki. Hope  skorar fyrir Hauka og staðan 59-44 þegar mínúta er eftir. Auður Íris Ólafsdóttir setur þrist úr hægra horninu og minnkar muninn í 12 stig og bætir svo um betur og skorar flautukörfu í lok fjórðungsins. Valsmenn fara inn í 4. leikhluta með 10 stiga mun 59-49. Haukaliðið spilaði mun ákveðnar í þriðja leikhluta og unnu hann með 10 stiga mun 16-26. Hope Elam var stigahæst Hauka með 20 stig og 8 fráköst en hjá Val var Guðbjörg Sverrisdóttir með 19 stig og 6 fráköst.
 
4. leikhluti
Valsliðið byrjar á að skora fyrstu 4 stig fjórðungsins en Jence Ann skorar fyrir Hauka, greinilegt að bæði lið koma tilbúin til leiks í síðasta leikhlutann. Lacey blokkar enn eitt skotið nú hjá Hope en Haukar halda boltanum og mikil barátta hjá báðum liðum en Lacey stelur enn einum boltanum og er kominn með 6 stolna bolta þegar 7 mínútur eru eftir. Lacey nær sínu 13 frákasti og skorar, Haukar missa boltann og María Ben Erlingsdóttir skorar úr sniðskoti og víti að auki, staðan 68-53 þegar tæpar 6 mínútur eru eftir af fjórða leikhluta. Hope fær þar sína fjórðu villu. Lacey blokkar Hope eina ferðina enn og Valsliði klikkar á tveimur skotum og mistök á báða bóga einkenna leikinn þessar mínútur.
 
Kristrún fær sína fjórðu villu þegar 3 mínútur eru eftir en Valsmenn virðast vera með sigurinn í hendi sér. Valur tekur leikhlé þegar 2:40 eru eftir og staðan 68-53, Valur hefur skorað 9 stig í lokahlutanum en Haukar aðeins 4! Guðrún Ósk bætir 3 stigum við og Lacey nær tveimur fráköstum í viðbót. Kristrún fær sína 5. villu þegar 1:30 eru eftir. Guðrún Ósk fær sína 5. villu þegar 1:15 eru eftir og Guðbjörg Sverrisdóttir setur tvö víti og eykur forystu Vals í 70-56. Haukar reyna hvern þristinn á fætur öðrum en ná ekki að hitta og enn er brotið á Guðbjörgu sem setur tvö víti og Valur pressar, stelur boltanum og María Ben skorar ein og óáreitt úr sniðskoti, Auður Íris setur loks þrist fyrir Hauka en sigurinn er Valskvenna sem fagna verðskulduðum sigri 74-59 og gera sitt til að eiga enn möguleika á úrslitakeppnissæti!
 
Guðbjörg Sverrisdóttir steig aldeilis upp í leiknum fyrir Val og skoraði 25 stig, tók 8 fráköst og gaf 3 stoðsendingar, Lacey Simpson átti einnig stóran þátt í sigri Vals og var með ótrúlega tölfræði 14 stig, 21 frákast, 8 varin skot, 6 stolna bolta og 4 stoðsendingar!  
 
Hjá Haukum var Hope Elam með 20 stig, 11 fráköst, 4 blokk og 2 stoðsendingar, Jence Ann Rhoads 15 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar.
 
Valsliðið var vel að sigrinum komið og var sterkari aðilinn í leiknum fyrir utan þriðja leikhluta en sigurinn virtist aldrei í hættu jafnvel þótt Melissa Leichtliner hafi farið meidd af velli um miðjan annan leikhluta og ekki komið meira við sögu.
 
 
Umfjöllun/ Hannes Birgir Hjálmarsson @ Vodafonehöllin að Hlíðarenda 
Fréttir
- Auglýsing -