Valsmenn tóku forustuna í undanúrslitaeinvígi gegn Skallagrím að Hlíðarenda í gærkvöld. Valsmenn voru nokkuð öruggir í sínum leik og leiddu allan leikinn með ca. 10 stigum og höfðu á endanum 6 stiga sigur 95-89. Valsmenn spiluðu háa pressu meirihluta leiksins og þvinguðu gestina oft út í klaufalegar sendingar eða erfið skot. Aðeins 5 leikmenn Skallagríms skoruð stig í leiknum og þar af fjórir þeirra með 86 af 89 stigum liðsins sem hlýtur að teljast áhyggjuefni fyrir næsta leik liðana. Stigahæstur í liði Valsmanna var Byron Davis með 28 stig en næstir voru Hörður Hreiðarsson með 13 stig og 9 fráköst og Björgvin Valentínusson með 12 stig. Hjá Skallagrím var Konrad Tota með 29 stig og 10 fráköst, næstir voru Sigurður Þórarinsson með 25 stig og Silver Laku með 21 stig.
Valsmenn byrjuðu leikinn betur og höfðu yfir þegar þrjár mínútur voru liðnar, 10-7. Heimamenn pressuðu allan völlinn og virtust gera gestunum lífið leitt. Það dugði þó ekki alltaf því Hafþór Gunnarsson setti niður ótrúlegasta skot, ef skot má kalla, sem undirritaður hefur séð. Hann fékk boltan úr innkasti fyrir aftan egin vítalínu, henti boltanum fram og hann söng í netinu. Liðin skiptust á að skora næstu mínúturnar en gestirnir komust yfir í fyrsta skiptið í leiknum þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður, 14-15. Valsmenn skoruðu hins vegar næstu 8 stig leiksins, pressan virtist vera að virka vel og þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum tók Skallagrímur leikhlé, 22-15. Valsmenn héldu þessu forskoti næstu mínúturnar en Skallagrímur átti seinasta skot leikhlutans og minnkuðu því muninn niður í 6 stig, 29-23. Gestirnir voru að gera virkilega vel í sóknarfráköstunum og fengu því oft tvö eða fleiri tækifæri í hverri sókn.
Valsmenn héldu pressunni áfram í öðrum leikhluta og uppskáru fyrir vikið stolna bolta og tókst að trufla sóknarleik gestana. Þegar tæplega fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum tók Skallagrímur leikhlé, 42-31. Heimamenn bættu smám saman í forskotið og þegar leikhlutinn var hálfnaður var það orðið 14 stig, 46-32. Skallagrímur hleypti þeim þó ekki lengra frá sér en það. Næstu mínúturnar skiptust liðin á að skora og þegar flautað var til hálfleiks munaði 10 stigum á liðunum, 52-42.
Stigahæstir í liði Valsmanna í hálfleik voru Hörður Hreiðarsson og Byron Davis með 11 stig hvor en stigin skiptust vel hjá Valsmönnum og voru 10 leikmenn komnir á blað hjá þeim í hálfleik. Hjá Skallagrím var spilandi þjálfari liðsins, Konrad Tota, stigahæstur með 19 stig og 6 fráköst. Næstir voru Sigurður Þórarinsson með 11 stig og Silver Laku með 8 stig.
Gestirnir voru sjóðandi heitir í upphafi seinni hálfleiks og settu niður hvern þristinn á fætur öðrum. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum voru þristarnir orðnir fjórir og það munaði bara 4 stigum á liðunum, 57-53. Valsmönnum tókst hins vegar að stoppa það og skoruðu 11 stig gegn 2 stigum gestanna á næstu fjórum mínútum, 68-55. Valsmenn héldu forskotinu í kringum 10 stig þær mínútur sem eftir lifðu þriðja leikhluta og þegar flautað var til loka hans var munurinn 11 stig, 77-66.
Skallagrímur hélt uppteknum hætti í þrigga stiga skotunum í upphafi fjórða leikhluta og virtust ekki geta klikkað úr skoti. Þegar þrjár mínútur voru liðnar munaði 8 stigum á liðunum, 82-74 og Skallagrímur tók leikhlé. Gestirnir náðu góðu áhlaupi og munurinn var kominn niður í 6 stig þegar fjórði leikhluti var hálfnaður, 85-79. Valsmenn svöruðu hins vegar með 5 stigum í röð og höfðu svo yfir 94-83 þegar Skallagrímur tók leikhlé með rétt rúmlega 2 mínútur eftir af leiknum. Í næstu sókn fengu Skallagrímsmenn 3 tækifæri til þess að minnka muninn en tókst ekki. Valsmenn tóku leikhlé þegar ein og hálf mínúta var eftir með 11 stiga forskot, 94-83. Konrad Tota setti niður þriggja stiga skot og fékk villuna í þokkabót þegar það voru 12 sekúndur eftir. Með því minnkaði hann muninn niður í 5 stig, 94-89. Guðmundur Kristjánsson var svo sendur á línuna og setti annað vítið niður. Skallagrímur tók leikhlé og höfðu því 11 sekúndur til þess að vinna niður 6 stig. Það tókst ekki þrátt fyrir tvær skottilraunir frá Silver Laku og leikurinn endaði með 6 stiga sigri, 95-89.
Umfjöllun: Gísli Ólafsson



