Valur lagði Keflavík í kvöld með 11 stigum í Subway deild kvenna, 84-73. Eftir leikinn er Valur í efsta sæti deildarinnar með 22 stig á meðan að Keflavík er í 5. sætinu með 12 stig.
Fyrir leik
Liðin hafa í tvígang áður mæst í deildinni í vetur og skipt með sér sigrum. Keflavík vann með 20 stigum í Origo Höllinni þann 24. október, 64-84, og svo vann Valur í Blue Höllinni þann 8. desember með 5 stigum, 74-79.
Gangur leiks
Heimakonur í Val eru með góð tök á leiknum frá fyrstu mínútu. Standa af sér nokkur álitleg áhlaup Keflavíkur í fyrsta leikhlutanum og eru 12 stigum yfir eftir fyrsta fjórðung, 27-15. Í öðrum leikhlutanum ganga heimakonur enn frekar á lagið og með glæsilegu sveifluskoti frá Hildi Björgu Kjartansdóttur setja þær forystu sína í 18 stig um leið og hálfleiksflautan gellur, staðan 48-30 þegar að liðin halda til búningsherbergja.
Stigahæt fyrir heimakonur í fyrri hálfleiknum var Ameryst Alston með 16 stig á meðan að Daniela Wallen var komin með 10 stig fyrir Keflavík.
Í upphafi seinni hálfleiksins gerir Keflavík vel að missa heimakonur ekki enn lengra frá sér, fá nokkra þrista til að detta í þeim þriðja, en virðast fá þá jafn hratt í andlitið hinumegin. Munurinn enn 17 stig, 64-47, eftir þrjá leikhluta. Í lokaleikhlutanum á virðist Keflavík í nokkur skipti vera að detta í gang, en voru þó aldrei neitt sérstaklega líklegar til þess að ná að koma sér almennilega inn í leikinn. Lokaniðurstaðan 11 stiga sigur Íslandsmeistara Vals, 84-73.
Tölfræðin lýgur ekki
Þriggja stiga nýting Vals var mun betri en Keflavíkur í leiknum. Setja niður 6 af 20 í leiknum, eða 30% á móti aðeins 4 af 24 hjá Keflavík, 16%.
Atkvæðamestar
Ameryst Alston var atkvæðamest í liði Vals í kvöld með 26 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar. Þá var Ásta Júlía Grímsdóttir með 21 stig og 10 fráköst.
Fyrir Keflavík var það Daniela Wallen sem dró vagninn með 24 stigum, 15 fráköstum og 5 stoðsendingum og Anna Ingunn Svansdóttir bætti við 15 stigum og 4 fráköstum.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst 16. febrúar. Valur mætir Haukum í Ólafssal og Keflavík fær Breiðablik í heimsókn.