spot_img
HomeFréttirValur hélt út gegn Blikum

Valur hélt út gegn Blikum

Valur tók á móti Breiðabliki í kvöld og virtust vera heldur gestrisnir í byrjun leiks. Eftir fimm mínútna leik voru Valsmenn aðeins búnir að skora tvö stig á móti 12 stigum gestanna. Þá fóru áhorfendur að gæla við þá hugmynd að staðan yrði 14:2, en það varð nú ekki.
 
 
Halldór Halldórsson fór á kostum í fyrri hálfleik og var kominn með 17 stig á meðan Valsmönnum voru mjög mislagðar hendur í sóknarleiknum. Þeir komust í ágætis færi en boltinn vildi ekki niður. Munurinn varð mestur 16 stig í fyrri hálfleik Breiðabliki í vil. Valsmenn komust þó smátt og smátt inn í leikinn og minnkuðu muninn í 33:39 í hálfleik.
 
Seinni hálfleikur var æsispennandi og skiptust liðin á forystu. Það vildi Valsmönnum til happs að Halldór Halldórsson fékk þrjár villur í fyrri hálfleik og lék ekkert í þriðja leikhluta, sem Valsmenn unnu 22:14. Undir lok leiksins komust Valsmenn í fimm stiga forystu og virtust halda að sigurinn væri unnin, en Breiðabliksmenn gáfust ekki upp og voru hársbreidd frá því að ná í framlengingu þegar Nathan Garth fékk tvö tækifæri undir körfunni á lokasekúndunum til að jafna leikinn. Valsmenn tóku því stigin og lokatölur 73-71.
 
Bestu menn í liði Breiðabliks voru þeir Halldór Halldórsson, Pálmi Geir Jónsson og Egill Vignisson. Í liði Vals var Illugi Gunnarsson bestur þó honum eins og öðrum Valsmönnum væri fyrirmunað að koma boltanum í körfuna í byrjun leiks. Einnig var Danero Thomas góður í leiknum.
 
Dómarar leiksins Ísak Ernir Kristinsson og Sigurbaldur Frímannsson, stóðu sig vel og voru sjálfum sér samkvæmir í dómunum.
 
 
Myndir og umfjöllun/ Torfi Magnússon
  
Fréttir
- Auglýsing -