spot_img
HomeFréttirValur hafði eins stig sigur í æsispennandi leik gegn Þór

Valur hafði eins stig sigur í æsispennandi leik gegn Þór

Áhorfendur á leik Þórs og Vals á laugardag vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið í upphafi leiks frekar en leikmenn Þórs, því eftir aðeins 30 sekúndur var staðan orðin 0-8 gestunum í vil. Elías þjálfari tók leikhlé hið snarasta og las hressilega yfir sínum mönnum, sem ekki verða þýdd frekar. Eftir leikhlé komu Þórsara ákveðnir til leiks og skoruð 6-0 og staðan eftir rúmar tvær mínútur 6-8. Valsarar héldu forystunni þar til um þrjár mínútur lifðu af fyrsta leikhluta en þá jöfnuðu Þórsarar 21-21 og komstu svo yfir 25-21. Af fyrsta leikhluta loknum leiddi Þór með þremur stigum 27-24. Frábær barátta leikmanna Þórs sem greinilega höfðu öðlast trú á því sem þeir voru að gera.
 
 
 
Annar leikhluti fór rólega af stað en eftir um tveggja mínútna leik jók Þór forskotið jafnt og þétt og þegar um mínúta lifði af fyrri hálfleik var forskot Þórs ellefu stig 48-37. Hvort lið skoraði sitt hvora körfuna áður en leikhlutinn var úti og þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik var staðan 50-39 Þór í vil. Trúlega einn besti fyrri hálfleikur sem Þór hefur spilað í vetur a.m.k. á heimavelli.
 
 
Þriðji fjórðungurinn byrjaði ágætlega hjá Þór en eftir um fjögurra mínútna leik og staðan 56-47 kom afleitur þriggja mínútna kafli þar sem Þór skoraði ekki eitt stig. Skyndilega var forskot Þórs komið niður í 4 stig og þrjár mínútur eftir að þriðja leikhluta. Þá var eins og leikmenn Þórs hafi aftur vaknað upp af værum blundi og þeir kláruðu fjórðunginn með góðum endaspretti og leiddu með 10 stigum þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst 65-55.
 
 
Byrjun Þórs í lokafjórðungnum var liðinu að falli þegar upp var staðið. Liðið skoraði ekki nema þrjú stig fyrstu fimm mínútur leikhlutans gegn þrettán Valsmanna og þeir komnir með eins stigs forskot 68-69. Þórsarar jafna svo í 70-70 þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Valsmenn leiddu svo með mest fjórum stigum þar til til að Þór kemst yfir 80-79 skömmu fyrir leikslok. Valsmenn bruna upp í sókn en Frisco Sandidge gerði vel og varði skot frá gestunum. Valsmenn taka leikhlé þegar aðeins 0,7 sekúndur voru eftir af leiknum. Eins ótrúlegt og það kanna að hljóma en þá dugði þessi tími gestunum. Valsmenn taka boltann inn og koma honum á Nathen Garth sem fer upp í skot – BINGÓ.
 
Svekkelsi leikmanna Þórs var gríðarlegt enda töldu menn alveg útilokað að koma boltanum í körfuna á þessum tíma. En boltinn fór niður áður en tíminn rann út en svo geta menn rifist endalaust um það hvort klukkan hafi farið af stað á réttum tíma.
 
 
Alla vega leikmenn Þórs léku án efa sinn besta leik í vetur. Baráttan til fyrirmyndar og eiga allir leikmenn liðsins hrós skilið. Enn og aftur sýndi hinn hávaxni og ungi Tryggvi Snær hversu öflugur leikmaður hann er. Menn hreinlega leggja ekki í að skjóta sé hann innan seilingar. Lítill fugl hvíslaði því að undirrituðum að Tryggvi væri eins og Lundaveiðimaður með háf… þá flýgur ekkert fram hjá stráknum, sé hann í færi þá ver hann skotið.
 
 
Atkvæðamestir í liði Þórs voru: Frisco sem skoraði 23 stig og tók 6 fráköst, Einar Ómar var með 17 stig og 8 fráköst og Tryggvi Snær með 15 stig 5 fráköst og 7 varin skot. Vic Ian var með 10 stig, Arnór 8, Daníel Andri 5 og Orri Hjaltalín 2.
 
 
Í liði Vals var Nathan Garth og Kristján Leifur Sverrisson stigahæstir með 19 stig hvor Illugi Auðunsson var með 14 og Leifur Steinn Árnason 13.
Næstu tveir leikir Þórs eru útileikir gegn Hamri og Breiðablik um næstu helgi en lokaleikur liðsins á tímabilinu verður heimaleikur gegn FSu föstudaginn 20. mars klukkan 20:00
 
 
Myndir og umfjöllun/ Páll Jóhannesson
  
Fréttir
- Auglýsing -