Næstkomandi miðvikudag, 30. mars, hefst úrslitakeppni Dominos deildar kvenna í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað undanúrslitarimmur Hauka gegn Grindavík og Snæfells gegn Val.
Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.
Þá er komin röðin að stuðningsmanni liðs Snæfells, Grétari Daníel Pálssyni, en lið hans fær Val í heimsókn í fyrsta leik næstkomandi miðvikudag kl 19:15.
Hversu lengi og afhverju fórst þú að standa við bak Snæfells í körfubolta?
Hef lengi verið áhugamaður um körfubolta. Var lengi í stjórn Snæfells, m.a. formaður félagsins og körfuknattleiksdeildarinnar á síðustu öld.
Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Snæfells?
Fyrstu góðu minningarnar eru þegar Snæfell vinnur sæti fyrst í efstu deild og margir góðir leikir eftir það.
Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?
Uppáhalds leikmaður minn í dag er Gunnhildur Gunnarsdóttir, hún er flottur alhliða leikmaður. Góð í vörn og sókn, flottur liðsmaður og leiðtogi. Sama má segja um Berglindi Gunnarsdóttur, mér þykir vænt um hana innan sem utan vallar. Annars er það liðsheildin sem er mest heillandi í kvennaliði Snæfells.
Hver er þinn "all-time" uppáhalds leikmaður og afhverju?
Hildur Sigurðardóttir er án efa sú sem fyrst kemur í hugann, topp leikmaður með öllu.
Hvernig metur þú þetta einvígi gegn Val?
Valur er sýnd veiði en ekki gefin. Þær eru með hörkulið sem hefur sýnt að þegar þær ná saman eru þær skeinuhættar. Snæfell tekur þessa rimmu, en ég vil ekki gefa upp í hvað mörgum leikjum.
Hverjir eru helstu styrkleikar Vals?
Styrkur Vals liggur í varnarleiknum þegar hann smellur hjá þeim, þær eru einnig með góða einstaklinga sem geta gert góða hluti.
Hverjir eru helstu styrkleikar Snæfells?
Styrkur Snæfells er vörnin og reynslan, góð liðsheild, góður bekkur og rétt hugarfar.
Hvaða leikmaður Snæfells er lykillinn að sigri í þessari rimmu?
Sigurinn veltur ekki á einum leikmanni heldur liðinu öllu. Þær þurfa allar að spila með hjartanu fyrir hver aðra og liðið sitt.
Hvernig á serían eftir að fara?
Snæfell vinnur, en vegna spennunar vil ég ekki gefa upp fjölda leikja.
Ef rautt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?
Þetta er ekki auðveld spurning. Ég hefði e.t.v haldið með Grindavík þar sem þar er Hólmari innanborðs. Haukarnir hefðu einnig komið til greina þar sem ég er uppalinn Gaflari. Valur væri inn í myndinni því þar hafa margir Hólmarar komið við sögu. Þessari spurningu verður ekki svarað meðan Snæfell er með lið.



