spot_img
HomeFréttirValur 2-0 í undanúrslitum gegn Haukum - Öflug vörn heimastúlkna kafsigldi Hafnfirðingum

Valur 2-0 í undanúrslitum gegn Haukum – Öflug vörn heimastúlkna kafsigldi Hafnfirðingum

Haukar heimsóttu Valsstúlkur í öðrum leik undanúrslitarimmu þeirra að kvöldi skírdags. Í fyrri leik liðanna höfðu Valsarar náð ótrúlegum endurkomusigri í framlengingu eftir að hafa verið mest 21 stigum undir. Haukar þurftu að vinna þennan leik til að jafna einvígið og endurheimta heimavallarréttinn.

Svo fór hins vegar ekki og Valur tók 2-0 forystu í einvíginu með mögnuðum varnarleik, 72-50.

Gangur leiksins

Valur var mætt frá fyrstu mínútu með öfluga vörn og gerðu Haukum lífið leitt í sókninni. Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, hafði breytt byrjunarliðinu sínu og skipt Sólrúnu stórskyttu út fyrir Lovísu stóru skyttu og það virtist ekki hafa þau áhrif sem hann vonaðist eftir. Þó að Haukar fengu oft minni varnarmann á stóran sóknarmann inni í teig voru þær ekki nægilega góðar að koma boltanum inn. Eftir rúmar fjórar mínútur var staðan orðin 11-3 og Baddi, eins og Bjarni er jafnan kallaður, neyddist til að taka leikhlé. Gestirnir úr Hafnarfirði tóku aðeins við sér eftir það, leikhlutanum lauk 18-14 og Haukar virtust vera að ná vopnum sínum á ný.

Í öðrum leikhlutanum tók svipað við og þeim fyrsta, Valsstúlkur pressuðu og spiluðu hörkuvörn og aftur tók Baddi leikhlé um miðbik leikhlutans eftir að Haukar voru komnir undir 26-16. Það hafði aftur smá áhrif og Valur náði ekki að auka við forystuna frekar. Haukar náðu að minnka muninn í 6 stig þegar nokkrar mínútur voru eftir en Valsarar tóku þá léttan varnarslurk í lokin og staðan í hálfleik varð 36-25.

Skotnýting Hauka (25%) og villufjöldi Valsara (11 villur gegn 6 hjá Haukum) sagði til um varnarákafa heimaliðsins sem gerði gæfumuninn í fyrri hálfleiknum.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með smá 7-0 áhlaupi hjá Haukum þar sem Valsarar gátu ekki skorað fyrstu 3 mínúturnar. Ólafur Jónas, þjálfari Vals, tók þá leikhlé og reyndi þannig að endurstilla liðið sitt. Það gékk eftir og Valsstúlkur svöruðu áhlaupi Hauka með sínu eigin 8-2 áhlaupi svo Baddi þurfti að taka leikhlé með 3 mínútur eftir af þriðja leikhluta í stöðunni 44-32. Jafnvægi komst aftur á en Haukar gátu ekki minnkað muninn og leikhlutanum lauk 49-38, sami munur og í hálfleik.

Áfram héldu Valsstúlkur að spila kæfandi vörn og þröngvuðu Haukana í marga tapaða bolta og mörg léleg eða erfið skot í fjórða leikhluta. Eva Margrét og Elísabet Ýr sátu dálítið lengi á bekknum í lokafjórðungnum og Valsarar náðu að auka muninn með fljótum sendingum og sóknarhreyfingum gegn hægari stórum leikmönnum Hauka. Þegar þær komu inn á með rúmar 5 mínútur eftir var munurinn orðinn of mikill og þær eins og hinar Haukastelpurnar hittu bara mjög illa.

Á lokamínútum fengu nokkrar mínútulægstu hjá Haukum að sjá gólfið og leiknum lauk 72-50, Val í vil. Þær leiða því einvígið 2-0.

Tölfræði leiksins

Vendipunkturinn

Vendipunktur leiksins var annað hvort upphaf leiksins þegar Valsarar byrjuðu leikinn með hörkuvörn og héldu því eiginlega út allan leikinn eða hvernig þær brugðust við áhlaupi Hauka í byrjun seinni hálfleiks. Haukar voru í höggfæri, fjórum stigum á eftir og þá hertu Valsstúlkur sig og tóku aftur yfir leikinn.

Atkvæðamestar

Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðsmiðherji Vals, átti flottan leik fyrir Val í kvöld. Hún skoraði 18 stig, tók 15 fráköst og stal þremur boltum. Þar að auki var hún skilvirkust meðal liðsfélaga sinna með 26 framlagspunkta. Kiana Johnson var stigahæst fyrir Val með 22 stig og var þar að auki með 7 fráköst og 9 stoðsendingar.

Hjá Haukum var Keira Robinson skárst með 16 stig og 12 fráköst en aðeins 13 framlagspunkta á heildina.

Tölfræðimolinn

Skotnýtingin í kvöld hjá Haukum segir alla söguna. Þær gátu ekki keypt sér körfu á köflum og enduðu leikinn með 28% skotnýtingu utan af velli (18/64 í skotum), þar af aðeins 10% í þriggja stiga skotum (2/20).

Áhugaverð tölfræðilína sem gæti blekkt er sú að Haukar vörðu 9 skot á meðan að Valsarar vörðu aðeins eitt skot. Það sýnir kannski skýrt að varin skot segja ekki endilega til um hvort liðið spili betri vörn.

Kjarninn

Valur er þá á leið í Ólafssal með tvo sigra í sarpinum og geta sópað Haukum á páskadag. Eins og Óli Jónas, þjálfari Vals, bendir á þá er hins vegar erfitt að mæta liði sem er með bakið upp við vegginn og þær verða að mæta einbeittar til að geta átt von um að loka seríunni í þremur leikjum.

Haukar hafa núna klúðrað tveimur leikjum í röð með mismunandi hætti en þurfa ekki endilega að örvænta. Þær geta ennþá unnið séríuna þó að þær hafi ekki gert sér það auðvelt með því að tapa fyrstu tveimur í röð. Liðið verður að stilla sig af og finna leið til að brjóta niður vörn Vals ef að þær vilja eiga einhverja von um að komast í úrslitarimmuna.

Viðtöl

Óli Jónas: “Náðum að spila góða vörn í 40 mínútur.”
Hildur Björg: “Hausinn var vel skrúfaður á í dag.”
Bjarni Magnússon: “Framkvæmdum allt sóknarlega bara mjög illa.”

Viðtöl og umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -