spot_img
HomeFréttirValsstúlkur með sigur í Keflavík

Valsstúlkur með sigur í Keflavík

Valsstúlkur gerðu sér góða ferð suður með sjó í kvöld þegar þær hirtu sigur og um leið heimavallarréttinn í einvígi sínu gegn Keflavík.  Þrátt fyrir að skora aðeins 64 stig í leiknum þá dugði það meira að segja til að knýja fram 10 stiga sigur á deildar- og bikarmeisturum Keflavíkur. Valur leiðir nú einvígið 0-1.
 
Leikur þessi var nú lítið fyrir augað og kannski ágætt að mætingin var eins léleg og raun bar vitni í Keflavík í kvöld.  Bæði lið virtust vera á tauginni og í raun leit leikurinn út eins og á æfingamóti að hausti til.  Leikmenn ryðgaðir í öllum aðgerðum, skot voru ekki að detta niður og leikmenn að gera sig seka um mistök sem varla sjást í miniboltanum lengur. 
 
Eftir rúmlega þriggja mínútna leik var staðan 2:4 og mætti halda að þarna væri önnur íþrótt á ferðinni.  En Keflavíkurstúlkur höfðu eitthvert smá forskot framan af leik og fram að hálfleik.  Eitthvað vonaðist undirritaður að þjálfarar liðanna myndu nú “rappa” vel yfir sín lið í hálfleik og í það minnsta annað liðið myndi mæta í seinni hálfleik með einhverja meiri rænu en í þeim fyrri. 
 
En allt kom fyrir ekki og hörmungin héldu áfram hjá báðum liðum. En það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta að Valsstúlkur vöknuðu til lífsins og hófu að herða varnarleik sinn.  Ekki þurfti nú mikið til því sóknaraðgerðir Keflavíkur voru unnar á hraða snigils og því var allt nokkuð fyrirséð hjá þeim.  Hinumegin kveikti svo Hallveig Jónsdóttir neistan með tveimur þristum og kom gestunum yfir í leiknum.  Þessi forysta dugði Valsstúlku fram til loka leiks og fögnuðu þær vel eftir leik. 
 
Hallveig Jónsdóttir fær titilinn maður leiksins þetta kvöldið. Hún setti niður 17 stig fyrir sitt lið og eins og fyrr sagði á réttu augnabliki komu mjög mikilvæg stig. 
 
Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugsdóttir með kraft og setti niður 21 stig en allir aðrir leikmenn áttu afleitan dag. 
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -