spot_img
HomeFréttirValsstúlkur halda í vonina (Umfjöllun)

Valsstúlkur halda í vonina (Umfjöllun)

20:32

{mosimage}

Molly Peterman átti góðan leik fyrir Val í dag 

Valur vann í dag sterkan sigur á Grindavíkurstúlkum í Iceland-Express deild kvenna í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda.  Leikurinn endaði með 12 stiga sigri heimastúlkna sem mættu þó ekki til leiks fyrr en í öðrum leikhluta.  Grindavík voru í miklu basli í sókninni og skoruðu til dæmis aðeins 9 stig í öðrum leikhluta. 

 

Valsstúlkur virkuðu mjög líflegar eftir að hafa varla verið lengi að koma sér í gang og fór Molly Peterman fyrir þeim að vanda en hún átti stórleik og skoraði næstum því helming stiga Valsstúlkna eða 33 stig.  Næst stigahæst hjá Val var Signý Hermansdóttir með 12 stig.  Hjá Grindavík var Tiffany Roberson með 18 stig og Petrúnella Skúladóttir með 11 stig.   Valsstúlkur lifa því ennþá í voninni á að komast í úrslitakeppnina en þær eru í keppni við Hauka um seinasta sætið í úrslitakeppnina. 

 

Grindavíkurstúlkur byrjuðu leikinn betur og höfðu strax nokkuð gott forskot, þegar fyrsti leikhluti var um það bil hálfnaður var munurinn kominn upp í 7 stig, 8-15.   Grindavík var að spila flotta vörn og áttu Valsstúlkur í mesta basli með að finna leið framhjá þeim, fyrir vikið fengu Grindavík mörg hraðaupphlaup og auðveldar körfur.  Þegar fyrsta leikhluta lauk höfðu gestirnir 9 stiga forskot, 15-24, og það var ekki mikið sem benti til þess að Valur gæti fundið svör við leik gestana.

 

Valsstúlkur mættu hins vegar með allt annað lið til annars leikhluta, strax eftir rúmlega tvær mínútur af leik var munurinn kominn niður í 2 stig og Valsstúlkur því skorað fyrstu 7 stig leikhlutans, 22-24.  Varnarleikur Valsstúlkna hafði stökkbreyst frá fyrsta leikhluta, en þær virtust spila maður á mann og svæðisvörn til skiptis, á meðan Grindavík voru ekki að nýta skotin sín og virtust ekki vera tilbúnar að mæta svona aggressívri vörn.  Þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður komust Valsstúlkur í fyrsta skiptið yfir þegar Signý Hermansdóttir 10. stigið sitt og kom Val í 30-29.   Grindavík hafði þá í þrjár sóknir í röð ekki náð skoti á hringinn og skotklukkan því runnið út.  Þegar flautað var til hálfleiks höfðu Valsstúlkur eins stigs forskot, 34-33. 

 

Bæði lið héldur áfram að spila fína vörn í byrjun þriðja leikhluta og lítið skorað, þegar um fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum var staðan 38-37 fyrir Val.  Hafdís Helgadóttur  var að spila virkilega vel fyrir Val í þriðja leikhluta en hún skoraði 7 stig af fyrstu 9 stigum liðsins í leikhlutanum.  Leikurinn var hnífjafn framan af leikhlutanum og þegar um þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum var munurinn 2 stig, 45-43.  Þá tóku Valsstúlkur hins vegar af skarið og náðu upp 5 stiga forskoti áður en flautan gall, 53-48. 

 

Ennþá gekk illa hjá Grindavík að skora og þegar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta höfðu þær aðeins skorað 2 stig gegn 5 stigum Valsstúlkna og munurinn því kominn í 8 stig, 58-50.  Grindavík tók svo á það ráð þegar um fjórar mínútur voru eftir af leiknum að taka leikhlé því munurinn var kominn upp í 10 stig og Valsstúlkur höfðu tekið 4 sóknarfráköst á um það bil einni mínútu og virtist sem Grindavíkurstúlkur hefðu misst alla trú á að geta unnið leikinn.  Valsstúlkur gáfu þó færi á sér á lokamínútum leiksins en þær spiluðu mjög óskynsamlega í sókn og tóku oft ótímabær skot eða gáfu vanhugsaðar sendingar.  Grindavík nýtti það hins vegar ekki og unnu Valsstúlkur því 12 stiga sigur, 69-57

 

Gísli Ólafsson

 

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -