spot_img
HomeFréttirValsstelpur komust í B-úrslitaleikinn

Valsstelpur komust í B-úrslitaleikinn

12:00

{mosimage}

Valsliðið með þjálfara sínum

Dagana 1.-4. maí héldu 12 Valsstelpur á körfuhátíðina í Gautaborg (Götaborg Basket Festivalen). Þetta mót hefur verið haldið í 30 ár og í þetta sinn mættu um 500 lið á mótið.

Þar sem leikirnir á mótinu eru frekar stuttir og lið eru ekki örugg með nema fjóra leiki á, þá ákvað þjálfari Vals (Kristjana Magnúsdóttir) að vera með tvö lið (1993 og 1994). Valshópurinn samanstóð af tveimur 1993 stelpum, sex 1994, tveimur 1995 og tveimur 1996. Það var því ljóst að það myndi mæða mikið á stelpunum, því flestar voru að leika 1-3 ár upp fyrir sig í aldri og stór hluti liðsins þurfti að leika með báðum liðunum, þegar það væri mögulegt

Í 1994 stelpuflokknum voru 56 lið og voru þau í 14 riðlum. 1994 liðinu gekk illa í riðlakeppninni og tapaði öllum leikjum sínum. Hlutir eins og ferðaþreyta, leikir snemma að morgni, tímamismunur, reynsluleysi og aðrir hlutir komu m.a. í veg fyrir betri úrslit. Það var því hlutskipti Valsliðsins að leika í B-úrslitum og voru þau leikin í formi bikarkeppni.

Í 32 liða úrslitum mætti Valur danska liðinu SISU. Nú voru Hlíðarendastelpurnar búnar að yfirvinna flesta hlutina sem trufluðu þær fyrstu daga mótsins. Þær mættu vel einbeittar í leikinn, léku grimma 2-3 svæðisvörn og nýttu hæðina sína vel í vörninni og áttu þær dönsku í miklu basli í sókninni. Leikurinn endaði með léttum sigri Vals 20-4.

Í 16 liða úrslitum mætti Valur sænska liðinu KFUM Central Basket sem hafði leikið ágætlega á mótinu. Í þessum leik voru Valsstelpurnar aðeins sex þar sem 1993 liðið var að leika á sama tíma í öðru húsi. Stóru leikmenn Vals lentu í miklum villuvandræðum í þessum leik, en frábær vörn tryggði góðan sigur, 19-15.

Síðasti leikur laugardagsins var leikur í 8 liða úrslitum á móti sænska liðinu Sandvika. Þær sænsku höfðu staðið sig vel á mótinu. Enn voru 1994 stelpurnar aðeins 6. Í þessum leik héldu þær áfram að leika hörkuvörn og sóknin var betri en oft áður. Valur var undir í hálfleik, 8-9. Í seinni hálfleik lék Valur mjög vel og náði að landa góðum sigri 20-11. Með þessari góðri frammistöðu á laugardeginum var Valur komið í undanúrslit.

Í undanúrslitum á sunnudeginum var andstæðingurinn sænska liðið Tumba Goif. Það hafði lent í erfiðum riðli og var einni körfu frá því að komast í A-úrslitin. Þetta lið spilaði ágæta vörn, var að skora nokkuð mikið og hafði leikið vel í B-úrslitunum. Það var því ljóst að Valur þyrfti að leika vel til að komast í úrslitaleikinn. Valsstelpurnar mættu vel stemmdar í leikinn og léku frábæra vörn og ágæta sókn á fyrstu mín. leiksins og komust yfir 8-0. Í þessum leik var Valur með fullmannað lið og notaði Kristjana þjálfari alla leikmenn mikið. Seinni helmingur fyrri hálfleiksins var barningur og Valur var yfir í hálfleik 10-0. Leikurinn jafnaðist aðeins í seinni hálfleik og endaði með sigri Vals 17-12.

{mosimage}
Ingibjörg lék vel í undanúrslitaleiknum

Þar með var ljóst að Valur var kominn í úrslitaleikinn sem átti að fara fram síðar um daginn. Ferðaskrifstofa sú sem skipulagði ferðina fyrir Val hafði annaðhvort ekki gert ráð fyrir því að Valur kæmist alla leið í úrslitaleikinn eða að hún vissi ekki hvenær mótið myndi enda, því að Valur þurfti að sleppa úrslitaleiknum til að komast tímanlega í flug í Kaupmannahöfn um kvöldið. Forsvarsmenn Vals töluðu við mótstjóra og báðu um að úrslitaleiknum yrði flýtt, en mótsstjórnin treysti sér ekki til þess. Valsstelpurnar sýndu mikinn styrk og þroska og tóku þessari niðurstöðu nokkuð vel.

Í 1993 stelpuflokknum voru 33 lið og voru þau í 8 riðlum. Valsstelpurnar léku ekki vel í fyrstu tveimur leikjunum í riðlinum og töpuðu stórt.

Kristjana þjálfari undirbjó liðið mjög vel fyrir þriðja leikinn í riðlinum gegn Tyresö Basket og notaði yngri stelpurnar meira en hún hafði gert í fyrri leikjunum tveimur. Þessi taktík gekk ágætlega og Valur lék prýðisgóðan fyrri hálfleik þar sem Rebekka fór á kostum. Valur var undir í hálfleik 16-18. Það var mikill barningur í seinni hálfleik og staðan var 18-18 mjög lengi. Þegar um 20 sekúndur voru eftir þá jafnaði Valur, 22-22. Tyresö fór fram og náði að skora körfu þegar um 5 sekúndur voru eftir. Þjálfari Tyresö hafði beðið um tíma og því hafði Kristjana þjálfari ráðrúm til að leggja upp ákveðna fléttu. Leiktaktík þjálfarans gekk upp og brotið var á Björgu í sniðskoti þegar um hálf sekúnda var eftir. Björg sýndi mikið öryggi og negldi báðum vítunum niður, 24-24.

 

Þar með var ljóst að leikurinn færi í framlengingu sem var í formi bráðabana, þ.e. liðið sem skoraði fyrr ynni leikinn. Framlengingin byrjaði með uppkasti. Aftur var teiknuð upp leikflétta sem heppnaðist nokkurn veginn og Rebekka tryggði liðinu sigur, 26-24.

{mosimage}
Hér bendir leikmaður Vals á lokatölurnar í fyrsta sigurleiknum

Þar með var 1993 liðið komið í B-úrslitin sem lið númer þrjú í riðlinum. Ljóst var að liðið fengi léttan andstæðing í 16 liða úrslitum en að sá leikur yrði erfiður þar sem stelpurnar yrðu aðeins 6 í leiknum og fengu ekki stuðning frá 1994 liðinu. Einhverra hluta vegna þá mætti ekki liðið sem átti að leika á móti Val í 16 liða úrslitum og Valur fékk skráðan 20-0 sigur.

Í 8 liða úrslitum mætti 1993 liðið Alvik Äppelviken. Enn voru 1993 stelpurnar aðeins 6. Valsstelpurnar léku ágætlega til að byrja með og voru yfir í smá tíma. Síðan hrundi leikur liðsins og þær töpuðu stórt, 45-6.

Væntanlega verður sagt nánar frá þessari keppnisferð Vals síðar á karfan.is.

{mosimage}
Valsliðið áður en farið var í skemmtigarðinn Lisaberg

Myndir: Stefanía Bergljót Stefánsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -