spot_img
HomeFréttirValssigur í Smáranum

Valssigur í Smáranum

Breiðablik – Valur 30/10/19        

Leikur kvöldsins fór fram í Smáranum og var ansi fámennt á svæðinu, þrátt fyrir það fór leikurinn af stað á slaginu 19.15 og byrjaði frekar jafn. Leikmenn beggja liða skiptust á að skora, Blikar virtust tilbúnir í slag kvöldsins og hleyptu Valsmönnum aldrei langt frá sér. Það var mikið um fráköst og mistök varnarlega, allavega Vals megin, í fyrsta leikhluta en sjálfstraust Blikanna var áberandi, þær voru óhræddar við topp lið deildarinnar. Valsarar sigu fram úr um miðjan leikhlutann en Blikarnir voru alls ekki tilbúnar að leyfa muninum að verða meiri en átta stig.

Annar leikhluti byrjaði eins og sá fyrsti, leikmenn beggja liða skiptu því á milli sín að skora en var farið að hitna aðeins í kolunum. Villurnar urðu meira áberandi og fylgdi viðhorfsbreyting leikamanna, mikið var af orðaskiptum inná vellinum sem skilaði sér ekki upp í stúku en líkamstjáning leikamanna sagði meira en nokkur orð. Þrátt fyrir það var ennþá mikil keppni milli liða og munurinn fór minnkandi um miðjan leikhlutann. Eitt var víst að Hallveig Jónsdóttir hafi reimað á sig skot skóna og var vel heit fyrir utan þriggja stiga línuna, sem og fyrir innan hana. 

Helena Sverris og Kiana Johnson voru einnig áberandi fyrir Valsara, þær spila feikna vel saman og sem meira er finna þær minnstu glufu til þess að koma boltanum á liðsfélaga sína. Það má segja að flæðið í sóknarleik Vals var áreynslu minni en hjá Blikunum. Þó svo að Blikarnir gerðu vel að láta boltann ganga og finna opna manninn en þá var það oft undir lok sóknarinnar og með mann hlaupandi í áttina til þeirra. En skotin rötuðu beint ofan í körfuna og er það eina sem gildir. Staðan í hálfleik var 41:45 fyrir Val.

Greinilegt er að þjálfari Vals hafi undirstrikað vörnina og útfærslur hennar í leikhléinu vegna þess að Valur mætti með blóðbragð í munninum í þriðja leikhluta og tilbúnar að heimta sigurinn. Valsvörnin var nánast óaðfinnanleg, þær fóru að pressa og voru óhræddar að vaða út í sendingar til þess að stela boltanum. Fimm stolnum boltum, nokkrum vörðum skotum og helling af stigum seinna var munurinn orðinn 27 stig og því brekkan sem beið Blikanna í fjórða leikhluta orðin frekar brött. 

Hraðinn í leiknum varð meiri í fjórða leikhluta, leikmenn urðu ágengir og sóttu boltann stíft ásamt því voru þjálfarar beggja liða að skipta ört inná. Athyglisvert er að segja frá því að fyrstu stig Vals í fjórða leikhluta komu ekki fyrr en á þriðju mínútu og að Guðbjörg Sverris komst fyrst á blað í fjórða. Fátt er hægt að segja um fjórða leikhluta þar sem Valsarar voru komnar með aðra höndina á sigurinn fyrir leikhlutann og erfitt fyrir Blika að snúa því við. Munurinn orðin tæplega 30 stig þegar fimm mínútur lifðu leiks og óx hann einungis, úrslit í Smáranum voru ljós snemma en endaði leikurinn 62:102 fyrir Val. 

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)

Umfjöllun: Regína Ösp Guðmundsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -