Valur tók í kvöld 1-0 forystu í úrslitaeinvíginu gegn Hamri í 1. deild karla. Um hörku slag var að ræða þar sem Hvergerðingar voru við stýrið framan af en heimamenn í Val brugðu undir sig betri fætinum í síðari hálfleik, héldu spilunum þétt að sér á lokasprettinum og höfðu loks 87-83 sigur í leiknum. Annar leikur liðanna fer fram sunnudaginn 14. apríl í Hveragerði, sigur hjá Val kemur þeim í úrvalsdeild en sigur hjá Hamri á sunnudag tryggir þeim oddaleik í Vodafonehöllinni.
Hannes Birgir Hjálmarsson fylgdist grannt með gangi mála í Vodafonehöllinni í kvöld:
Talsverð taugaspenna einkennir fyrstu mínútur leiksins, lítið skorað og tapaðir boltar áberandi sérstaklega Hamarsmegin. Hamarsmenn ná þó að nýta skotin sín betur og þegar 6 mínútur eru eftir af fyrta leikhluta er staðan 4-10. Skotnýting Valsmanna er virkilega slæm en Benedikt Blöndal á góða innkomu þegar hann kemur inná fyrir Chris Woods og setur þrist og sniðskot og minnkar muninn í 3 stig 9-12 þegar 3 mínutur eru eftir af leikhlutanum. Liðin skiptat á vítaskotum og Valsmenn minnka muninn í 1 stig í tvígang 14-15 og 1:45 eftir. Liðin skiptast svo á körfum síðustu mínútuna og staðan er 19-20 fyrir Hamar eftir fyrsts leikhluta. Meiri hraði og ákveðni var síðustu mínútur leikhlutans og greinilegt að taugaspennan er að minnka.
Barningurinn heldur áfram í öðrum leikhluta og liðin skora sitthvora körfuna á fyrstu tveimur mínútum 2. leikhluta. Hamar nær síðan smá áhlaupi og nær 6 stiga forskoti 25-31 þegar 6:54 eru eftir af leikhlutanum og Valur tekur leikhlé. Stemmningin er öll Hamarsmegin og Ágúst tekur annað leikhlé mínútu síðar i stöðunni 25-34. Valsmönnum gengur erfiðlega að finna glufur í vörn Hamars og þegar þær finnast vill boltinn ekki ofaní! Hamarsmenn halda 9-11 stiga forystu þangað til 2 mínútur eru eftir af leikhlutanum Ragnar Nathanaelsson fær sína þriðju villu þegar 20 sekúndur eru eftir. Hamar leiðir í hálfleik 36-45 eftir ágæta hittni í öðrum leikhluta, nýting Valsmanna er enn slök.
Liðin skora á víxl og eftir þrjár mínútur er staða 41-49 fyrir Hamar og hittni liðanna er ekki til fyrirmyndar. Hamar er þó alltaf með um tíu stiga forystu og virðast ekki ætla að láta hana af hendi. Valsmenn missa boltann í þrígang gegn pressu Hamars og forskot Hamars fer í 16 stig 44-60 og fjórar mínútur eftir af þriðja leikhluta. Valsmenn ná loks að leysa pressuna og minnka muninn í 51-63 þegar 2:22 lifa af leikhlutanum. Ragnar Nathanaelsson fær fjórðu villuna sína þegar mínúta er eftir og er skipt útaf ,,med det samme.” Valsmenn ná góðri rispu á síðustu mínútunni og minnka muninn í 6 stig 61-67 í lok þriðja leikhluta og ná þvi að vinna leikhlutann 25-21.
Baráttan er mögnuð í upphafi fjórða leikhluta, Valsmenn setja þrist í fyrstu sókninni og Hamarsmenn svara. Þá setja Valsmenn þrjár körfur í röð og bæta svo við þristi og hefur Valur náð forystu 71-69! Valsmenn hafa skorað tíu stig gegn tveimur Hamarsmanna í fjórða leikhluta.
Liðin skiptast svo á forystunni og taugaspennan er áþreifanleg!Benedikt Blöndal setur þrist og kemur Val 4 stigum yfir en Jerry Hollis jafnar með sniðskoti og tveimur vítum 76-76 þegar 2:40 eru eftir af leiknum. Miðherjarnir í liðunum Birgir Björn og Ragnar fá sínar fimmtu villur þegar um 3 mínútur eru eftir. Örn Sigurðar jafnar í 79-79 þegar 1:30 eru eftir en Chris Woods kemur Val yfir á ný. Valur leiðir 81-80 þegar mínuta er eftir.
Hamar tapar boltanum þegar 35 sekúndur eru eftir og Chris kemur Val í 83-80 og Hamar tekur leikhlé þegar 23 sekúndur eru eftir af leiknum. Lewis brennir af skoti og Chris nær frákastinu fyrir Val og Valsmenn taka leikhlé, 15 sekúndur eftir. Hamarsmenn brjóta strax og Ragnar Gylfason setur bæði vítin, Hamar nýtir ekki skot og Rúnar Erlingson setur víti. Valsmenn fagna gífurlega eftir 87-83 sigur í þessari rimmu gegn Hamri og geta tryggt úrvalsdeildarsæti í Hveragerði á sunnudagskvöldið.
Valsmenn mættu frekar seint í þennan leik sem Hamarsmenn leiddu megnið af leiknum. Næsti leikur verður eflaust magnaður en bæði liðin sýndu á köflum ágætis leik en duttu niður þess á milli. Baráttan var þó til staðar hjá báðum liðum og hraðinn mikill.
Vodafonehöllin / Hannes Birgir Hjálmarsson
Valur-Hamar 87-83 (19-20, 17-25, 25-22, 26-16)
Valur: Chris Woods 17/11 fráköst, Birgir Björn Pétursson 15/9 fráköst, Atli Rafn Hreinsson 15/6 fráköst, Benedikt Blöndal 14, Rúnar Ingi Erlingsson 14/6 fráköst/6 stoðsendingar, Ragnar Gylfason 8, Þorgrímur Guðni Björnsson 4, Benedikt Skúlason 0, Bergur Ástráðsson 0, Kristinn Ólafsson 0, Sigurður Skúli Sigurgeirsson 0, Jens Guðmundsson 0.
Hamar: Þorsteinn Már Ragnarsson 22, Örn Sigurðarson 20/5 fráköst, Jerry Lewis Hollis 17/11 fráköst/3 varin skot, Lárus Jónsson 9, Oddur Ólafsson 7, Halldór Gunnar Jónsson 5, Hallgrímur Brynjólfsson 3, Eyþór Heimisson 0, Mikael Rúnar Kristjánsson 0, Ragnar Á. Nathanaelsson 0/10 fráköst, Bjartmar Halldórsson 0, Skafti Þorvaldsson 0.
Mynd/ Torfi Magnússon