Það var boðið upp á sannkallaðan erkifjendaslag þegar Reykjavíkurliðin KR og Valur mættust í Frostaskjólinu. Bæði lið voru jöfn með 8 stig eftir 7 umferðir fyrir þessa umferð og því mátti búast við hörkuleik, KR hafa tapað þremur leikjum í vetur og hafa þessir tapleikir komið í síðustu fjórum leikjum. Valur hefur aftur á móti unnið 3 af síðustu fjórum leikjum. Leikurinn var í járnum allan leikinn, það var ekki fyrr en í 4. leikhluta að Kári mætti og sá til þess að Valur fór með öll stigin, Valur vann 91-99.
Gestirnir byrjuðu leikinn betur og þá aðallega Booker, en síðan jafnaðist leikurinn og þegar um fjórar mínútur voru eftir komust KR yfir í fyrsta skiptið. Linards Jaunzems var virkilega drjúgur í fyrsta leikhluta og Booker hjá Valsmönnum, endaði leikhlutinn jafnt, 28-28.
Það voru síðan heimamenn sem byrjuðu annan leikhluta betur og virkuðu mun frískari. Höfðu undirtökin án þess að ná neinu almennilegu forskoti, það var enn frekar lítið um varnarleik hjá báðum liðum. Síðustu mínúturnar í hálfleiknum skiptast liðin á að hafa forystuna, Valsmenn náðu aðeins að laga varnarleikinn, reyndar fengu þeir alveg hjálp í stundum vafasömum sóknaraðgerðum hjá KR, en Valur leiddi í hálfleik 47-52.
Áfram hélt spennan og baráttan í 3. leikhluta, aldrei neinn munur sem heitið getur, stuðningsmenn KR með stuðið upp á 10, allan leikinn. En aftur byrjuðu heimamenn betur og náðu forystunni en Valur er með Kára í sínu liði sem sá til þess að Valur var aldrei langt undan komust svo yfir þegar tæpar 4 mínútur voru eftir. Valsmenn fóru í síðasta leikhlutann með forystu, 71-76.
Í fjórða leikhluta mætti Kári eins og svo oft áður í fjórða leikhluta, henti í góða þriggja stiga körfu þegar Valsmönnum var að ganga ílla að skora og síðan tvær glæsilegar stoðsendingar sem skiluðu 5 stigum, Jakob henti í leikhlé til að stoppa þetta flæði. Það er ekki ofsögum sagt að þetta leikhlé stoppaði ekki Kára, hann skoraði næstu 4 stig. KR voru komnir 12 stigum undir þegar KJ setur niður þriggja stiga körfu og fær víti að auki, tæpar 3 mínútur eftir, þarna var tækifærið að snúa þessum leik sér í vil. En Valsmenn spiluðu skynsamlega, tóku langar sóknir og nýttu sér mistök KR-inga í sókninni. Það var síðan allt vitlaust í stúkunni í lokin þegar dómararnir dæmdu ekkert eftir klafs undir Valskörfunni. Valur landaði torsóttum sigri 91-99, leikur sem hefði getað endað á hinn veginn, en Valsmenn eiga eitt stykki Kára.
Hjá KR var Linards Jaunzems yfirburðamaður, með 30 stig, KJ setti 23, Friðrik var drjúgur og Þórir Guðmundur líka, þó hann hafi kannski verið fullragur að skjóta á körfuna. Hjá Valsmönnum Kári bestur, steig upp í 4. leikhluta og setti 20 stig, Lawson var samt stighæstur með 22 stig, Booker byrjaði mjög vel og gerði 16 stig.
Nú tekur við landsleikjahlé, en Ísland fær Bretland í heimsókn 30. nóvember. Næstu leikir þessara liða í deildinni er 5. desember, þegar KR heimsækir Keflavík en Valur fær Njarðvík í heimsókn.



