spot_img
HomeFréttirValsmenn sýndu mátt sinn og völtuðu yfir Hauka (umfjöllun)

Valsmenn sýndu mátt sinn og völtuðu yfir Hauka (umfjöllun)

23:31

{mosimage}

Valsmenn tóku á móti Haukum að Hlíðarenda í 1. deildinni í kvöld.  Bæði lið eru í toppbaráttunni í deildinni og því um hörkuslag að ræða.  Leikurinn byrjaði hnífjafn en Haukar höfðu þó frumkvæðið allan fyrsta leikhluta.  Eitthvað gerðist þó hjá gestunum í öðrum leikhluta því þeir virtust vera í bullandi vandræðum með að koma boltanum ofaní körfuna.  Valsmenn gengu á lagið og höfðu 13 stiga forskot í hálfleik.  Í seinni hálfleik var í raun aðeins eitt lið inná vellinum, Haukar skoruðu aðeins 18 stig í seinni hálfleik gegn 35 stigum Valsmanna og endaði leikurinn því með stórsigri Vals, 84-54.

Stigahæstur í liði Vals var Hjalti Friðriksson með 17 stig og 7 fráköst, en næstir voru Jason Harden með 16 stig og Gylfi Geirsson með 13 stig.  Hjá Haukum var Kristinn Jónasson stigahæstur með 12 stig en Óskar Ingi Magnússon, Helgi Björn Einarsson og Sveinn Ómar Sveinsson allir með 8 stig.  

{mosimage}

Hlutirnir voru fljótir að gerast á upphafsmínútunum, liðin skiptust á því að leiða og munurinn var aldrei meiri en 3 stig.  Haukar höfðu þó frumkvæðið allt frá stöðunni 6-9.  Kristinn Jónasson var atkvæðamikill í upphafi fyrir gestina en hann skoraði 7 af fyrstu 12 stigum liðsins.  Valsmenn komust svo ekki aftur yfir fyrr enn í stöðunni 20-19 þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum.  Þá höfðu heimamenn byrjað að pressa allan völlinn og virtist það slá Hauka útaf laginu í örskamma stund.  Það leið þó ekki að löngu þar til pressuvörn heimamanna fór í vaskinn og Haukar náðu mesta forskoti leiksins fram að því, 20-25.  Valsmenn skoruðu hins vegar seinustu 4 stig leikhlutans og munaði því aðeins einu stigi þegar leikhlutanum lauk, 24-25

Valsmenn byrjuðu anna leikhluta í svæðisvörn sem virtist skila góðum árangri, þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum voru heimamenn komnir 6 stigum yfir, 36-30.  Valsmenn voru á þessum kafla að nýta skotin sín gríðarlega vel.  Haukar skoruðu ekkert næstu mínúturnar og Valsmenn gengu á lagið.  Þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum var forskot heimamanna komið upp í 13 stig, 43-30.  Haukar náðu að minnka muninn niður í 36-46 þar til Kjartan Orri Sigurðsson skoraði laglega þriggja stiga flautukörfu.  Munurinn var þess vegna ennþá 13 stig þegar flautað var til hálfleiks, 49-36.  

Liðin virtust vera á sprettlhaupaæfingu í upphafi þriðja leikhluta en liðin hlupu völlin af fullum hraða.  Það skilaði þó litlu fyrir bæði lið en þegar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum var munurinn 15 stig, 53-38.  Haukar höfðu því aðeins skorað 2 stig fyrstu fjórar mínútur leikhlutans.  Það leið þó ekki að löngu þar til Valsmenn voru komnir í gang aftur og þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum var munurinn kominn í 20 stig, 58-38.  Valsmenn fengu mörg mjög dýrmæt sóknarfráköst í þriðja leikhluta og virtust fá endalaus tækifæri til þess að auka muninn.  Haukar voru einfaldlega ekki á tánum.  Þegar flautað var til loka þriðja leikhluta var munurinn kominn upp í 24 stig, 66-42. 

{mosimage}

Ekki byrjaði fjórði leikhluti betur fyrir gestina sem skoruðu aðeins eitt stig á fyrstu þremur mínútum leikhlutans og þá tók Pétur Ingvarsson, þjálfari Hauka, leikhlé.  Valsmenn höfðu þó aðeins skorað 4 stig en munurinn var 27 stig.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður var forskot Valsmanna 28 stig og ekkert virtist ætla að ganga upp hjá gestunum.  Valsmenn sýndu það á lokamínútunum að þeir ætluðu ekkert að gefa eftir og pressuðu allan völlinn.  Leikurinn endaði með 30 stiga sigri heimamanna, 84-54.

Umfjöllun : Gísli Ólafsson

Myndir: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -