spot_img
HomeFréttirValsmenn stóðust prófið á Meistaravöllum

Valsmenn stóðust prófið á Meistaravöllum

Valur lagði KR í kvöld í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos deildar karla, 82-88. Staðan í einvíginu er því jöfn 2-2 og þurfa þau að mætast í oddaleik til að útkljá hvort þeirra kemst áfram í undanúrslitin.

Gangur leiks

Heimamenn í KR voru skrefinu á undan í upphafi leiks. Ná mest 9 stiga forskoti á upphafsmínútunum. Valsmenn gera þó vel í að vinna það niður og eru stigi yfir eftir þann fyrsta, 27-28. Undir lok fyrri hálfleiksins ná gestirnir svo yfirhöndinni í leiknum, vinna annan leikhlutann með 6 stigum, 16-22 og eru 7 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 43-50.

Valur heldur í forystu sína í upphafi seinni hálfleiksins. KR gerir nokkuð góða atlögu að þeim í þriðja leikhlutanum, en Valur heldur í sitt, eru 7 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann. Á lokakaflanum reyndu heimamenn svo hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn, komust þó aðldrei nær en 3 stigum og fengur í raun ekkert raunverulegt tækifæri til þess að jafna undir lokin. Að lokum nokkuð sterkur sigur Vals, 82-88.

Kjarninn

Með bakið upp að vegg sýndi reynslumikið lið Vals úr hverju það er gert. Leiddu frá lokum fyrsta leikhluta allt þangað til lokaflautan gall. Langt frá því að vera gallalaus leikur hjá þeim samt, ekkert frekar en að KR hafi verið eitthvað agalegir þrátt fyrir tapið. Valsmönnum virðist fyrirmunað að koma sínum besta sóknarmanni Jordan Roland í gang í leiknum, nokkuð svipað og uppi er á teningnum hjá KR með Tyler Sabin, þó svo að hann hafi verið að dreifa boltanum vel. Í kvöld bjuggu Valsmenn vel að því að eiga inni sóknarleiki frá Pavel Ermolinskij og Miguel Cardoso, á meðan að þetta virtist öllu erfiðara fyrir heimamenn.

Tölfræðin lýgur ekki

Valsmenn tapa aðeins 5 boltum í leiknum á móti 16 töpuðum hjá KR.

Atkvæðamestir

Pavel Ermolinskij var bestur í liði Vals í kvöld með 16 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir heimamenn var það Tyler Sabin sem dró vagninn með 15 stigum, 10 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Liðin mætast í oddaleik komandi föstudag í Origo höllinni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -