spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaValsmenn sluppu með skrekkinn gegn ÍR

Valsmenn sluppu með skrekkinn gegn ÍR

Valur lagði ÍR í kvöld eftir tvær framlengingar í Subway deild karla, 102-97.

Eftir leikinn er Valur í efsta sæti deildarinnar með 32 stig á meðan að ÍR er í 11. sætinu með 10 stig.

Fyrir leik

Í fyrri leik liðanna í deildarkeppninni vann Valur sigur í nokkuð spennandi leik í Skógarseli, 77-83. Bestur hjá ÍR í þeim leik var Collin Pryor með 19 stig og 12 fráköst, en fyrir Val skilaði Kári Jónsson 21 stig.

Gangur leiks

Gestirnir úr Breiðholti byrja leik kvöldsins af miklum krafti. Ná að halda Íslandsmeisturunum stigalausum fyrstu sex mínútur leiksins og komast í 0-15. Valur gerir þó ágætlega að stoppa blæðinguna undir lok leikhlutans og koma nokkrum stigum á töfulna. ÍR þó enn með 12 stiga forskot þegar sá fyrsti er á enda, 10-22. Heimamenn ná svo nokkuð álitlegu áhlaupi í upphafi þess annars. ÍR nær þó að halda þeim í fjarlægð og eru enn 10 stigum yfir þegar þrjár mínútur eru til hálfleiks, 29-39. Þeir gera svo vel að hanga á forystunni til búningsherbergja, en með laglegum hornþrist frá Collin Pryor eru þeir 7 stigum yfir, 40-47.

Stigahæstur í fyrri hálfleik fyrir Val var Pablo Bertone með 12 stig á meðan að Collin Pryor var með 11 stig fyrir ÍR.

Hægt og bítandi ná Valsmenn svo áfram að vinna niður forskot ÍR og eru komnir aðeins stigi frá þeim þegar sex mínútur eru eftir af þriðja leikhluta, 49-50. Þeir ná svo loks að jafna leikinn í stöðunni 55-55 þegar fjórar mínútur eru eftir af fjórðungnum. Leikurinn er svo bara hnífjafn inn í þann fjórða, 60-61. ÍR-ingar ná svo að vera skrefinu á undan vel inn í fjórða leikhlutann og leiða með 4 stigum þegar fimm mínútur eru til leiksloka. Leikurinn er svo í járnum fram á lokamínúturnar, en þegar þrjár mínútur eru eftir leiðir ÍR með þremur stigum, 74-77.

Valur kemst aftur í forystu með stórum þrist frá Callum Lawson þegar ein og hálf mínúta er eftir, 79-78. Pablo Bertone setur svo annan í næstu sókn þeirra á eftir og eru þeir þá þremur stigum yfir, 82-79, með um 50 sekúndur á klukkunni. Þá nær ÍR tveimur góðum stoppum og jafna leikinn í 82-82 þegar um 20 sekúndur eru eftir. Kári Jónsson fær ágætis tækifæri til þess að vinna leikinn fyrir Val, en allt kemur fyrir ekki, leiknum er framlengt.

Liðin skiptast á körfum í framlengingunni allt fram á lokasekundurnar, þar sem bæði lið fengu álitleg tækifæri til þess að vinna leikinn. Að lokum er það karfa Martin Passoja hjá ÍR sem tryggir þeim aðra framlengingu 89-89.

Það er svo lengi vel jafnt á öllu i annarri framlengingu, en þegar tvær mínútur eru eftir komast heimamenn fjórum stigum yfir, 96-92. Því forskoti gangar þeir á út leikinn sem þeir vinna að lokum með 5 stigum, 102-97.

Atkvæðamestir

Bestur í liði heimamanna í kvöld var Pablo Bertone með 34 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir ÍR var það Taylor Jones sem dró vagninn með 14 stigum, 23 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Hvað svo?

ÍR á leik næst komandi fimmtudag 23. mars gegn Keflavík í Skógarseli á meðan að Valur heimsækir Njarðvík í Ljónagryfjuna degi seinna, föstudag 24. mars.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt / Atli Mar)

Fréttir
- Auglýsing -