11:50
{mosimage}
(Rob Hodgson var sterkur á lokakaflanum í gærkvöldi)
Þrijða umferð í 1. deild karla hófst í gærkvöldi þegar Valsmenn tóku á móti Ármann að hlíðarenda. Leikurinn var hnífjafn frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu en munurinn á liðunum varð aldrei meira en 5 stig. Liðin skiptust á að leiða leikinn en heimamenn höfðu þó frumkvæðið meiri hluta leiksins. Valsmenn unnu á endanum með því að halda boltanum seinustu mínútuna en Ármann tókst ekki að brjóta fyrr en lokaflautan gall. Valsmenn nýttu tvö vítin sem fengust fyrir það brot og var munurinn þess vegna 3 stig þegar liðin gengu til búningsklefana, 80-77. Stigahæstur í liði Vals var Ragnar Gylfason með 19 stig en Steinar Kaldal var að vanda yfirburðamaður í liði Ármanns með 24 stig.
Fyrsti leikhluti spilaðist nokkuð jafn en Valsmenn höfðu frumkæðið framan af leik. Ármann var hins vegar að nýta skotin sín mjög vel og voru þess vegna aldrei langt undir. Valur var að spila svæðisvörn sem virtist ekki skila neinu því Ármann var buinn að finna lausn á því nánast við fyrstu sókn. Ármann komst svo yfir í 14-15 þegar um það bil fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. Eftir það skiptust liðin á að skora og endaði leikhlutinn hnífjafn, 22-22, þrátt fyrir að Steingrímur Ingólfsson fékk tvær tilraunir af vítalínunni á lokasekúndunum til að kom Val aftur yfir.
Stigin létu eitthvað á sér standa í öðrum leikhluta en bæði lið voru klaufar að nýta færin sín ekki betur en raun bar vitni. Þegar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum hafði Valur tekið forskotið, 24-23. Valsmenn höfðu áfram frumkvæðið en þegar leikhlutinn var hálfnaður snérist það við og Ármann hafði fjögura stiga forskot þegar um það bil fjórar mínútur voru eftir, 35-39. Ármann var að spila fína svæðisvörn sem sló Valsarana algjörlega útaf laginu. Gestirnir hættu hins vegar af einhverjum ástæðum í svæðisvörninni og við það náðu Valsmenn ágætis áhlaupi. Seinustu fjórar mínúturnar skoraði Ármann aðeins 5 stig gegn 13 stigum Valsmann. Heimamenn höfðu þess vegna 4 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 48-44.
Stigahæstur í hálfleik hjá Val var Ragnar Gylfason með 13 stig en næstur var Hjalti Friðriksson með 12 stig og Jason Harden með 9 stig
Hjá Ármann var Steinar Kaldal virkilega sterkur með 17 stig en næstir voru Gunnlaugur Gunnlaugsson með 10 og #14 með 7 stig
Það datt allt undan leik beggja liðana í þriðja leikhluta og sóknarleikurinn var vægast sagt slakur hjá báðum liðum. Þegar tæplega fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum höfðu heimamenn eins stigs forskot 56-55. Ármann hafði þó komist yfir um miðjan leikhlutan en Valsmenn virtust alltaf vakna örlítið þegar þeir voru komnir undir á stigatöflunni og svöruðu fyrir sig. Þegar ein mínúta var eftir var hins vegar jafnt á öllum tölum, 60-60, og ekki mátti sjá á milli hvort liðið væri betra. Valsmenn höfðu þó einu stigi betur á lokamínútuni og þar var munurinn þegar flautað var til loka leikhlutans, 63-62.
Ármann byrjaði fjórða leikhluta mun betur en heimamenn og voru ekki lengi að taka það litla forskot sem Valsmenn höfðu. Þegar um það bil fjórar mínútur voru eftir höfðu Valsmenn hins vegar tekið forskotið aftur. Ármann virtist þó eiga nóg inni því þeir nýttu skot sín vel á lokakaflanum á meðan Valsmenn voru að klikka úr ótrúlegustu skotum. Þegar um tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum tók Valur leikhlé en þá hafði Ármann náð 5 stiga forskoti, 72-77. Rob Hodgson kom hins vegar virkilega sterkur inn eftir leikhléið en hann skoraði 4 stig af næstu 6 stigum Vals en þeir voru komnir yfir 78-77 þegar ein mínúta var eftir. Valsmönnum tókst svo að halda boltanum þessa einu mínútu sem eftir var með gríðarlega tæpum löngum sendingum og einum stolnum bolta og þar með var sigurinn í höfn. Guðmundur Kristjánsson setti svo tvö víti niður þegar tíminn var liðinn og var forskotið því orðið 3 stig, 80-77.
Umfjöllun : Gísli Ólafsson
Mynd úr safni : [email protected]



