spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaValsmenn með sigur á Flúðum þrátt fyrir 43 stig Walsman

Valsmenn með sigur á Flúðum þrátt fyrir 43 stig Walsman

Valur-b gerði góða ferð á Flúðir í gærkvöldi þar sem þeir sigruðu Hrunamenn, 87-86, í æsispennandi leik í 2. deild karla.

Valsmenn mættu helst til fámennir í leik með 7 leikmenn á móti fullskipuðu liði heimamanna og ekki batnaði ástandið þegar hinn efnilegi Arnaldur Grímsson meiddist í upphitun og gat ekki tekið þátt í leiknum.

Leikurinn var hnífjafn frá fyrstu mínútu og skiptust liðin á forustunni í upphafs fjórðungnum. Blake Walsman fór mikinn á þessum kafla og skoraði 17 stig og eftir góðan lokakafla leiddu Hrunamenn í lok leikhlutans með 5 stigum, 30-25.

Í öðrum leikhluta ná Valsmenn að hægja á Walsman og halda honum í “einungis” 8 stigum, en 6 þeirra komu af vítalínunni. Við það hikstar sóknarleikurinn Hrunamanna og Valur vinnur leikhlutann 16-23 og leiða 46-48 í hálfleik.

Í þriðja leikhluta ná heimamenn mest 7 stiga forustu, 60-53, eftir ósvaraðar körfur frá Bjarna Bjarnasyni og Walsman. Hinn 16 ára gamli Símon Tómasson hjá Val kemur þó sínum mönnum aftur í leikinn með því að skora 8 stig á síðustu mínútu leikhlutans og kemur gestunum 3 stigum yfir, 66-69, fyrir fjórða leikhluta.

Loka fjórðungurinn gaf fyrstu þremur ekkert eftir í spennunni og skiptust liðin nokkrum sinnum á forustunni. Í stöðunni 77-79 fyrir Valsmenn skorar Walsman 6 stig í röð fyrir Hrunamenn og breytir stöðunni í 83-79 þegar innan við 5 mínútur eru eftir. Valsmenn ná þó forustunni aftur eftir körfur frá Bergi Ástráðssyni og Pálma Þórssyni.

Símon Tómasson á vítalínunni þegar 4,3 sekúndur eru eftir.

Hetja leiksins á lokakaflanum var svo hinn 16 ára gamli Símon. Þegar rétt um ein mínúta er eftir setur hann niður eitt af tveimur vítum. Hann er svo aftur á ferðinni þegar 4,3 sekúndur eru eftir og setur þá niður tvö víti og kemur Val í 4 stiga forustu, 83-87, og endanlega tryggir þeim sigurinn. Bjarni Bjarnason setur þó niður þriggja stiga skot um leið og klukkan gellur en það var of lítið, of seint og Valsmenn sluppu frá Flúðum með eins stigs sigur í farteskinu.

Stigaskorið hjá Val dreifðist vel en allir sex leikmennirnir sem komu við sögu skoruðu 8 stig eða meira. Stigahæstur var Pálmi Þórsson með 20 stig en Símon Tómasson setti 19 stig og Egill Jón Agnarsson 15 stig.

Blake Walsmann var stigahæstur heimamanna með 43 stig en hann tók einnig 16 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Næstur kom Sigurjón Unnar Ívarsson með 13 stig og leikstjórnandinn gamalreyndi Bjarni Bjarnason skoraði 12 stig, öll frá þriggja stiga línunni, en gaf auk þess 8 stoðsendingar.

Eftir leikinn eru liðin jöfn í 2-4 sæti ásamt Njarðvík-b með 6 stig en Njarðvíkingar eiga þó leik til góða.

Tölfræði leiksins
Staðan í 2. deild

Myndir: Facebook síða Vals

Fréttir
- Auglýsing -