spot_img
HomeFréttirValsmenn með réttu handtökin í Fjósinu

Valsmenn með réttu handtökin í Fjósinu

Valur tók í kvöld 2-0 forystu í undanúrslitaeinvígi sínu gegn Skallagrím í 1. deild karla. Lokatölur í Fjósinu 83-87 Val í vil þar sem Jamie Stewart skilaði af sér 30 stigum í liði Valsmanna.

Leikurinn byrjar fjörlega en jafnræði er með liðunum í upphafi fyrsta leikhluta og liðin leiða til skiptis staðan 9-8 fyrir Skallagrím þegar 4 mínútur eru búnar en Valur nær góðu áhlaupi og kemst í 9-14 þegar leikhlutinn er hálfnaður, nokkuð um mistök hjá báðum liðum og spennustigið greinilegar hátt hjá leikmönnum beggja liða.

Valsmenn auka muninn í 11-18 þegar 3 mínútur eru eftir og virðast Valsmenn ætla að vera fyrri til að ná að stilla taugarnar. Sóknarleikur Skallagríms er frekar staður á meðan Valsmenn ná að spila sig að körfunni gegn vörn Skallagríms og leiða 11-21 þegar 2 mínútur eru eftir af leikhlutanum. Skallagrímur nær smá áhlaupi í kjölfarið og minnka muninn í 17-23 þegar mínúta er eftir. 

Valur leiðir 18-28 eftir fyrsta leikhluta.

Skallagrímsmenn mæta ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og ná strax að saxa á forskot Valsmanna og eftir tvær körfur í röð er staðan 23-30 fyrir Val. Skallagrímur spilar fasta pressuvörn og nær að trufla sóknarleik Valsmanna sem eru í vandræðum með að koma knettinum í körfuna og þegar 4 mínútur eru eftir er staðan 26-32 gg Valur tekur leikhlé. Þegar leikhlutinn er hálfnaður er staðan 28-36 fyrir Val. Skallagrímsmenn halda uppteknum hætti og minnka muninn í þrjú stig 33-36 en Valsmenn ná að svara fyrir sig og ná sjö stiga forskoti þegar 2 mínútur eru eftir 35-42.

Skallagrímur spilar áfram hörku vörn og ná að stela boltanum nokkrum sinnum og minnka muninn í 1 stig 41-42 þegar ein og hálf eru eftir af leikhlutanum og jafna úr víti 42-42. Allir baráttuboltar lenda hjá Skallagrími sem sýna mikla baráttu í leikhlutanum og Valsmenn orðnir pirraðir á slælegu gengi liðsins í leikhlutanum og Skallagrímur kemst yfir 44-42 þegar 1 mínúta er eftir!

Hörkubarátta í æsispennandi leik og ómögulegt að spá fyrir um hver fer með sigur af hólmi, Valsmenn mun sterkari í fyrsta leikhluta en Skallagrímur í öðrum leikhluta, Valur er með eins stigs forystu í hálfleik 44-45.

Barningurinn heldur áfram í seinni hálfleik og liðin skiptast á að skora en Skallagrímur setur þrjá þrista og leiðir 53-47 þegar 3 mínútur eru liðnar af síðari hálfleik, talsverður taugatitringur virðist hrjá bæði liðin og mistök á báða bóga. Barátta Skallagríms skilar þeim 10 stiga forystu 59-49 þegar 4 mínútur eru liðnar og virðast Valsmenn ekki finna nein svör við varnarleik og baráttu Skallagrímsmanna (enda einungis skorað 4 stig á 5 mínútum í seinni hálfleik) en taka leikhlé til að reyna að finna einhver svör! 

Stemmningin er gífurleg í stúkunni og áhangendur beggja liða láta vel í sér heyra! 

Valsmenn ná að minnka muninn í sjö stig 61-54 þegar 3.30 eru eftir af þriðja leikhluta og baráttan er svakaleg, bæði lið spila fastar varnir en munurinn helst í sjö stigum  66-59 þegar 2.30 eru eftir en Valsmenn minnka muninn í tvö stig þegar mínúta er eftir af leikhlutanum 66-64 og aftur 68-66 þegar Skallagrímur setur þrist og ná fimm stiga forskoti á ný 71-66 fyrir lokaleikhlutann.

Valsmenn minnka muninn strax í fjórða leikhluta og jafna 72-72 eftir 2 mínútur. Liðin skora til skiptis og eftir þrist frá Skallagrími er staðan 77-73 og 6 mínútur eftir af leiknum. Þegar fjórði leikhlutinn er hálfnaður er Skallagrímur með eins stigs forystu 77-76 og sigurinn getur lent hvoru megin sem er!

Valsmenn setja þrist og ná forystunni á ný 77-79, þetta gæti reynst krítískt augnablik og Skallagrímur tekur leikhlé. Liðin skiptast á körfum og spennan er ótrúleg. Valsmenn ná að skora 6 stig gegn tveimur og leiða 79-85 þegar 1.30 er eftir og Skallagrímur setur tvö víti og skotklukkan rennur út í næstu sókn Valsmanna – staðan 83-85 eftir að brotið er á Skallagrímsmanni skorar og fær víti að auki. Vítaskotið geigar  og Valsmenn ná frákastinu og leggja af stað í sókn. Brotið er á Valsmanni og Valur tekur leikhlé þegar 16 sekúndur eru eftir. Valsmenn skora og auka forskotið í fjögur stig 83-87 og 10 sekúndur eftir og allt stefnir í sigur Valsmanna í þessu æsispennandi leik! Skallagrímur fær opinn þrist en hann fer ekki oní og Valsmenn fagna sigri númer tvö í þessari undanúrslitarimmu 1. deildar.

Leikurinn var hin besta skemmtun og sigurinn gat lent hvoru megin sem var en taugar Valsmann virtust sterkari í lokin og það reið baggamun í þessum leik sem Valur vann 83-87 og leiðir viðureignina 2-0.

Tölfræði leiksins

 

Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson

 

Umfjöllun/ Hannes Birgir Hjálmarsson

Fréttir
- Auglýsing -