Valsmenn fara með sigur í farteskinu inní úrslitakeppnina í ár í 1. deild karla eftir baráttusigur á Þór Akureyri á tímabundnum heimavelli Valsmanna, íþróttamiðstöð Gróttu á Seltjarnarnesinu. Leikurinn var kaflaskiptur og liðin skiptust á að leiða leikinn allt fram að lokamínútunum. Valsmenn voru þó sterkari á lokakaflanum og höfðu 5 stiga sigur 90-85.
Gestirnir frá Akureyri höfðu þó mikla yfirburði undir körfunni sem þeim tókst ekki að nýta sem skildi en þeir hirtu 16 sóknarfráköst í leiknum gegn aðeins 5 sóknarfráköstum “heimamanna” Byron Davis var áberandi í sóknarleik Vals og skoraði 35 stig en næstir á blaði voru þeir Sigurður Gunnarson með 11 stig og Snorri Páll Sigurðsson með 10 stig. Hjá Þór átti Óðinn Ásgeirsson stórleik með 28 stig og 14 fráköst en næstir stigahæstir voru Weslay Hsu með 22 stig og Baldur Helgi Árnason með 13 stig.
Þór hafði frumkvæðið í fyrsta leikhluta en Valsmenn náðu góðum kafla í lok leiksins og leiddi með tveimur stigum þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta, 22-20
Gestirnir höfðu náð frumkvæðinu aftur þegar leið á annan lehluta og höfðu yfir 31-33 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Liðin skiptust á að leiða leikinn næstu mínúturnar þar til um það bil tvær mínútur voru eftir en þá náðu Valsmenn nokkrum stoppum í röð og höfðu yfr 43-38. Því forskoti náðu þeir að halda og höfðu yfir, 47-42 þegar flautað var til hálfleiks.
Byron Davis var gríðarlega drjúgur fyrir “heimamenn” í Val og skoraði heil 19 stig eftir fyrsu tvo leikhlutana. Næstur á blað var Snorri Páll Sigurðarson með 8 stig. Hjá Þór Akureyri var Óðinn Ásgeirsson stigahæstur með 19 stig og 8 fráköst. Næstur á blað hjá gestunum var Baldur Helgi Árnason með 7 stig.
Valsmenn byrjuðu þriðja leikhluta mun betur og þegar þrjár mínútur voru liðnar höfðu þeir náð 10 stiga forskoti, 54-44. Byron Davis var mjög áberandi í sóknarleik “heimamanna” eins og í fyrri hálfleik en það fóru allir boltar í gegnum hann í sóknarleik Valsmanna. Þessu forskoti héldu Valsmenn meirihluta þriðja leikhluta eða allt þar til undir lok leikhlutans þegar Þór náði að minnka muninn hratt niður og höfðu á endanum minnkað hann niður í 3 stig þegar flautað var til loka leikhlutans, 64-61. Þór hafði því unnið seinustu þrjár mínútur leikhlutans með 10 sitgum gegn 2. Þór var að vinna baráttuna um fráköstin sem reyndist þeim gríðarlega vel en þeir voru að fá allt uppí þrjú tækifæri í hverri sókn að koma boltanum ofaní.
Þór byrjaði fjórða leikhluta af krafti, jöfnuðu leikinn fljótt og þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar höfðu þeir komist þremur stigum yfir, 64-67. Við það tók Yngvi Páll Gunnlaugsson, þjálfari Vals, leikhlé. Valsmenn leyfðu gestunum þó ekki að komast mikið lengra en það og þegar leikhlutinn var tæplega hálfnaður tóku gestirnir leikhlé þegar staðan var 70-72. Þór leiddi leikinn mest allan fjórða leikhluta en Valsmenn komust yfir í fyrst skiptið í leikhlutanum þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum, 78-77. Jafnt var á öllum tölum á lokamínútunum þar til Björgvin Rúnar Valentínusarson setti niður glæsilega þriggja stiga körfu þegar 45 sekúndur lifðu leiks, 86-83. Þór misnotaði næstu sókn og sendu svo Snorra Pál á línuna þegar 18 sekúndur voru eftir. Hann nýtti bæði skotin og höfðu Valsmenn því 5 stiga forskot. Það tók Þór aðeins nokkrar sekúndur að bæta tveimur stigum og tóku strax leikhlé. Byron Davis var sendur á línuna þar sem hann setti tvö stig og tryggði þar með sigur Valsmanna, 90-85.
Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Mynd: Torfi Magnússon



