spot_img
HomeFréttirValsmenn flugu inn í úrslit

Valsmenn flugu inn í úrslit

Valsmenn kjöldrógu Þór Akureyri í oddaviðureign liðanna í 1. deild karla í dag. Liðin mættust í Vondafonehöllinni þar sem Valsmenn gerðu út um leikinn í þriðja leikhluta eftir að hafa leitt með níu stigum í hálfleik. Lokatölur í Vodafonehöllinni í dag voru 81-64 Val í vil. Valur og Hamar munu því mætast í úrslitaeinvíginu um laust sæti í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð þar sem Valsmenn verða með heimaleikjaréttinn.
 
Atli Rafn Hreinsson var heitur í upphafi leiks og skoraði 7 af 9 fyrstu stigum heimamanna. Norðanmönnum tókst illa að finna körfuna, aðeins 4 af 10 í teignum og 0 af 6 í þristum á fyrstu tíu mínútunum og að þeim loknum leiddu heimamenn 15-10. Chris Woods kom inn í fyrsta leikhluta eftir langvarandi meiðsli og fékk að spreyta sig í rúmar tvær mínútur en það var nokkuð ljóst að sár hans eru ekki fullgróin þó hann næði að læða að tveimur stigum á upphafsmínútunum.
 
Ólafur Aron tók nokkrar fínar rispur fyrir Þórsara í öðrum leikhluta en það voru þó Valsmenn sem náðu að slíta sig frá 29-18 og slæm skotnýting gestanna enn að koma þeim í koll. Þór náði þó 8-0 áhlaupi með því að sækja grimmt að körfunni og minnkuðu muninn í 29-26. Valsmenn áttu lokaorðið, gerðu sex síðustu stigin fyrir hálfleik og leiddu 35-26 í leikhléi þar sem Þorgrímur Björnsson gerði lokastigin með stökkskoti í Þórssteignum um leið og fyrri hálfleikur rann sitt skeið.
 
Atli Rafn Hreinsson var með 11 stig og 5 fráköst hjá Val í fyrri hálfleik en atkvæðamestur í liði Þórsara var Ólafur Aron Ingvason með 12 stig. Gestirnir frá Akureyri reyndu 15 þriggja stiga skot í fyrri hálfleik en aðeins tvö þeirra vildu niður.
 
Valsmenn hófu síðari hálfleik með látum, Rúnar Ingi og Ragnar Gylfa með níu stig úr þristum og til að bæta gráu ofan á svart hjá Þórsurum þá fékk Halldór Örn Halldórsson sína fjórðu villu snemma í þriðja leikhluta. Þórsarar fóru illa með boltann og Valsmenn voru duglegir að refsa, komust í 18 stiga mun 50-32 eftir körfu frá Atla Rafni Hreinssyni en þá tóku gestirnir leikhlé.
 
Samráðsfundur Norðanmanna var jafn áhrifaríkur og sólarorkuknúið vasaljós því Valsmenn fóru hreinlega á kostum í þriðja leikhluta. Benedikt Blöndal tók fínar rispur og Birgir Björn var duglegur við körfuna og þetta gerðist allt voðalega áreynslulaust hjá heimamönnum og staðan 65-39 eftir þriðja leikhluta og í raun ekkert annað en kraftaverk sem gæti bjargað Þór úr þessari klípu eftir að Valur vann þriðja hluta 30-13.
 
Fjórði leikhluti var aldrei spennandi, Valsmenn voru með þetta í vasanum og lokatölur 81-64. Atli Rafn Hreinsson var stigahæstur hjá Val með 13 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar en þeir Þorgrímur, Rúnar og Birgir voru allir með 10 stig. Hjá Þór var Ólafur Aron með 23 stig og Óðinn Ásgeirsson með 12 stig og 7 fráköst.
 
Umfjöllun/ [email protected]
  
Fréttir
- Auglýsing -