spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaValsmenn áttu lokasprettinn í Hellinum

Valsmenn áttu lokasprettinn í Hellinum

Undirritaður fullyrðir að aldrei nokkurn tímann hefur önnur umferð deildarkeppninnar verið jafn hryllilega spennandi og einmitt núna! Allir körfuboltaunnendur hafa verið með böggum hildar af eftirvæntingu og því til staðfestingar kom Dabba T. vart dúr á auga í nótt samkvæmt áreiðanlegum heimildum. Einn leikjanna í kvöld var viðureign ÍR og Vals í Hertz-hellinum og við skulum spyrja yfirnáttúruleg öfl að úrslitum leiksins…

Spádómskúlan: Ekki er amalegt að hafa spádómskúlu við höndina þegar 100 dagar eða svo eru á milli umferða! Kúlan er með þennan leik á tæru, sér Hlíðarendapilta úr Vesturbænum taka flestöll fráköst leiksins og vinna 78-92 sigur.

Byrjunarlið:

ÍR: Everage, Sæsi, Pryor, Sigvaldi, Gúzzi

Valur: Jón, Pavel, Kristó, Bilic, Miguel

Gangur leiksins

Gúzzi kom rífandi hress til leiks eftir langa fjarveru frá leiknum fagra og sá til þess að ÍR-ingar leiddu á fyrstu mínútunum. Valsarar áttu samt sem áður betur með að skapa sér ákjósanleg færi en hittu illa í byrjun. Um miðjan leikhlutann voru gestirnir komnir 9-12 yfir eftir þrista frá Pavel og Bilic. Það syrti svo áfram í álinn fyrir heimamönnum en Valsarar runnu ítrekað í gegnum arfaslaka vörn ÍR-inga og Kristó og Bilic skoruðu að vild. Hlíðarendapiltar leiddu 17-25 eftir einn.

Evan byrjaði ekki inn á frekar en í fyrsta leik og skoraði ekki fyrr en í öðrum leikhluta. Sigvaldi stimplaði sig svo inn með kærkomnum þristi og svaraði Geitinni sem hafði smellt einum slíkum rétt áður. Þá var staðan 28-33, 7 og hálf til leikhlés og Finnur Freyr ákvað að henda í leikhlé. Það var hins vegar kollegi hans Borche sem kannski nýtti hléið betur því hann skipaði fyrir um svæðisvörn hjá sínum mönnum. Það tók aðeins taktinn úr sókn gestanna en Geitin setti þó annan þrist og hélt Hlíðarendapiltum nokkrum stigum yfir frameftir leikhlutanum. Everage er hins vegar slétt sama í hvaða deild hann er staddur og svaraði með tveimur þristum og kom annar þeirra ofan úr sveit og setti stöðuna í 45-44 heimamönnum í vil. Gestirnir áttu þó lokastigin fyrir leikhlé og leiddu 45-46. Everage setti 15 stig í fyrri hálfleik en Bilic 10 fyrir Val.

Gestirnir byrjuðu mun betur í síðari hálfleik og Miguel lét til sín taka. Finnur Atli henti svo í þrist svona til að ergja Svenna Klassa og pota í illa gróin ÍR-sár og kom stöðunni í 49-58. Borche tók þá leikhlé og það hafði jákvæð áhrif á heimamenn eins og vanalega. Evan kom aftur inn á völlinn með galdrasprotann og Sigvaldi nýtti sér slæma tapaða bolta Valsara. Allt í einu voru ÍR-ingar komnir aftur yfir 63-60, 2:20 eftir og Finnur Freyr sá þann kost vænstan að taka leikhlé. Gúzzi kom þá aftur til skjalanna og gaf gestunum eina góða stungu og sá til þess að ÍR-ingar leiddu 67-63 fyrir lokaátökin.

Heimamenn virtust ætla að taka leikinn yfir í byrjun fjórða eftir 14 stiga dæmigerðan ÍR-viðsnúning í þriðja leikhluta. Pryor spilaði vel í upphafi fjórðungsins og eftir stolinn bolta og 2 stig frá Everage leiddu Breiðhyltingar 73-65. En þá var komið að gestunum að taka á sprettinn og leiddi Miguel og Svalason áhlaupið. Svalason setti fallegan þrist um miðjan leikhlutann og kom sínum mönnum 72-77 en Sigvaldi svaraði jafnharðan með þristi í horninu. Everage setti svo enn einn þristinn og aftur leiddu heimamenn, 81-79, og 4 mínútur eftir af leiknum – allt í járnum og þarna var þörf á áhorfendum til að magna upp spennuna! Portúgalinn snjalli Miguel skemmdi hins vegar spennupartýið allnokkuð með 7 flottum stigum í röð og breytti stöðunni í 81-86. Tvær mínútur góðar voru eftir en Danero ákvað að fara í ofurhetjuleik í stöðunni 86-90 og fleygði upp fáránlegu þriggja stiga skoti sem var í raun banabiti heimamanna. Miguel títtnefndur kláraði leikinn á línunni í framhaldinu og lokatölur urðu 90-96 gestunum í vil.

Menn leiksins

Miguel Cardoso var atkvæðamestur sigurvegaranna með 22 stig, 4 fráköst og 7 stoðsendingar og varð betri og betri eftir því sem á leið leikinn. Annars fengu Valsmenn framlag frá mörgum í kvöld en þó skal nefna Svalason sérstaklega – hann skoraði 9 stig og gaf 3 stoðsendingar á 12 mínútum rúmum.

Hjá ÍR var Everage klárlega bestur, skoraði 27 stig, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Kjarninn

Liðin eru mjög vel mönnuð og sigurinn hefði augljóslega getað fallið hinum megin við línuna. Leikurinn var mjög skemmtilegur og áhorfendaleysið ætti ekkert að skemma leikinn fagra að neinu marki. Það er einfaldlega æðislegt að fá körfuboltann aftur af stað og bæði þessi lið eiga eftir að reynast andstæðingum sínum erfið í næstu leikjum.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -