spot_img
HomeFréttirValskonur sterkari þegar á reyndi

Valskonur sterkari þegar á reyndi

Valur fékk KR í heimsókn í uppgjöri toppliðanna í 10. umferð Domino’s deildar kvenna. Valur var fyrir leikinn ósigrað í toppsætinu og KR í öðru sætinu með sjö sigra.

KR liðið kom eilítið sterkara til leiks og komust Valskonur fyrst yfir þegar um tvær mínútur lifðu fyrsta fjórðungs. Mætingin var svona “la-la” í dag, hefði verið skemmtilegra að hafa mun fleiri á svona toppleik.

KR leiddi lengstum í leiknum en hetjukörfur frá Kiönu Johnson og hörkuvarnarleikur skiluðu sigrinum fyrir Íslandsmeistarana í dag.

Gangur leiks:

Staðan var jöfn að fyrsta leikhluta loknum. Bæði lið spiluðu stífa vörn og komu andstæðingnum úr jafnvægi sóknarlega. Nokkrir slæmir tapaðir boltar á bæði lið komu eftir hörku varnarleik.

Valskonur töpuðu boltanum ekki alveg jafnoft og voru sex stigum yfir þegar þær unnu boltann á lokasekúndum fyrri hálfleiks. Dani komst inn í sendingu fram völlinn og Sanja skoraði tvö stig fyrir lokaflautið. Fjögurra stiga forskot Íslandsmeistaranna eftir baráttu hálfleik.

Gestirnir komu sterkari til leiks í seinni hálfleik og KR-konur jöfnuðu leikinn á fyrstu mínútu hálfleiksins. Benedikt, þjálfari KR, hafði farið vel yfir uppsetningu sókna síns liðs því það var meiri sannfæring í aðgerðum gestanna, allavega til að byrja með í seinni hálfleiknum. Þegar tæpar 4 mínútur lifðu þriðja fjórðungs komst KR í fimm stiga forskot og Darri, þjálfari Vals, tók leikhlé. KR hélt áfram að spila vel og leiddi með sjö stigum fyrir lokafjórðunginn.

Valskonur jöfnuðu leikinn á fyrstu tveimur mínútunum í 4. leikhluta en KR-konur svöruðu með tveimur körfum í beit. Hallveig setti mikilvægan þrist og Kiana kom Val aftur yfir skömmu síðar, mikið um stutta spretti liðanna á þessum tímapunkti í leiknum. Kiana Johnson setti tvo þrista niður í tveimur sóknum í röð stuttu seinna. í millitíðinni skoraði Dani þrist.

Þegar rétt rúmar tvær mínútur lifðu leiks kom Hallveig sér á línuna og skoraði úr öðru vítinu, í næstu sókn var brotið á Sylvíu. Þá tók Benedikt leikhlé, vildi ræða málin við sínar konur. Valur gat komist í fimm stiga forystu þegar um 90 sekúndur lifðu leiks.

Sylvía setti bæði vítaskotin niður og Valur í kjörstöðu. KR mistókst að skora í næstu tveimur sóknum. Í þriðju sókninni komst Dani upp að körfunni en sniðskot hennar rataði ekki rétta leið og þar með var sigurinn svo gott sem unninn hjá Íslandsmeisturunum.

Vendipunkturinn:

Þegar fjórar mínútur lifðu leiks leiddi KR með einu stigi. Kiana setti stóran þrist en Dani svaraði strax með öðrum hinu megin í næstu sókn. Dani fékk vítaskot að auki sem vildi ekki niður. Hinu megin tók Kiana annan þrist sem rataði rétta leið og KR tókst ekki að svara þeirri körfu. Stórar körfur frá Kiönu sem vógu þungt.

Hetjan: Kiana Johnson

Kiana skilaði 28 stigum, átta stoðsendingum, þremur fráköstum og þremur stolnum boltum í dag. Hún setti fjórar þriggja stiga körfur og komu þrjár af þeim í lokafjórðungnum. Helmingur stiga hennar komu í lokafjórðungnum. Hún spilaði hörkuvörn og hennar framlag undir restina vóg þungt. Alls var hún með 32 í heildarframlag.

Tölfræðin lýgur ekki:

Í hálfleik hafði KR-liðið tekið tólf fleiri fráköst en Valsliðið. KR tapaði boltanum 11 sinnum á meðan Valur tapaði boltanum fimm sinnum. Þetta var saga leiksins því undir lok leiks var KR með 20 fleiri fráköst en tapaði hins vegar boltanum 14 sinnum oftar. Eðlilega skoraði KR því oftar eftir sóknarfráköst og Valur oftar eftir tapaða bolta.

Leikjaálag:

Darri, þjálfari Vals, kom inn á það í viðtali að of mikið leikjáalag væri á sínu liði sérstaklega, þar sem hann væri með flestar landliðskonur. Þétt væri leikið í kringum landsleikjahléið og leikmenn að glíma við meiðsli vegna þessa.

Réðu ekki við gildruvörn Vals:

KR tapaði boltanum alls 22 sinnum og var það oftast nær vegna frábærs varnarleiks Valskvenna. Þær þvinguðu gestina í erfiðar sendingar og þrengdu að KR-konum á réttum tímapunktum. 14 fleiri tapaðir boltar hjá gestunum skiluðu sér í 10 fleiri skoruðum stigum eftir hraðaupphlaup hjá Val og 14 fleiri stigum skoruðum eftir tapaða bolta.

Slæm vítanýting:

Fjögur vítaskot rötuðu rétta leið hjá KR í 11 tilraunum (36%), það er alls ekki nægilega gott. Valskonur skoruðu úr 15 af 19 tilraunum sínum (78%).

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -