spot_img
HomeFréttirValskonur öruggar í Reykjavíkurrimmunni

Valskonur öruggar í Reykjavíkurrimmunni

Valur og KR áttust við í Domino´s deild kvenna í kvöld. Valskonur höfðu öruggan 80-59 sigur í leiknum og eru nú í 4. sæti deildarinnar með 10 stig.  
 
Jafnræði er með liðunum fyrstu mínúturnar en þegar tvær og hálf mínúta er liðin af leiknum þarf að stöðva leikinn vegna bilunar í leikklukkunni í Vodafonehöllinni, staðan 5-4 fyrir Val. Um 20 mínútna töf verður á leiknum vegna þessa en eftir að leikurinn hefst að nýju taka Valskonur öll völd á vellinum eftir að staðan var 11-9 og hálfleikurinn hálfnaður, en Valur skorar 12-0 næstu mínútur og KR skorar engöngu 4 stig á síðustu fimm mínútum fyrsta leikhluta sem endar með tíu stiga forskoti Vals 23-13.
 
Liðin skiptast á körfum fyrstu þrjár mínútur annars leikhluta og staðan 30-19 þegar sjö mínútur eru eftir af leikhlutanum og hvorugt liðið nær að skora í tvær og hálfa mínútu þangað til KR skorar og breytir stöðunni í 30-21. Valur svarar úr vítum KR setur þrist og allt í einu virðist leikurinn vera að hressast og síðustu mínúturnar skiptast liðin á að setja þrista og staða 37-28 þegar 30 sekúndur eru eftir en hvorugu liðinu tekst að skora meira í leikhlutanum og , staðan í hálfleik 37-28.
Valsliðið virkar mun sterkara en hefur þó ekki tekist að hrista KR almennilega af sér.
 
Liðin skiptast á að skora en KR nær að minnka muninn í 7 stig, 39-32 skorar Valur sex stig í röð og kemst í 45-32 en KR svarar með tveimur körfum eftir að hafa náð að stela boltanum í tvígang. Þá er komið að Val að stela boltanum og skora og þegar fimm mínútur eru eftir er staðan 47-36 fyrir Val. Hvorugt liðanna er að spila virkilega vel og mistök ansi mikil á báða vegu. Valur skorar svo sjö stig gegn einu KR-inga og munurinn 17 stig, 54-37 þegar þrjár mínútur eru eftir af þriðja leikhluta og stefnir í öruggan sigur Vals. Liðin skiptast á körfum út fjórðunginn og staðan fyrir lokafjórðunginn er 59-43 fyrir Val eftir glæsilega flautukörfu hjá KR.
 
KR byrjar lokaleikhlutann betur og skorar fyrstu sjö stigin og minnkar muninn í 59-49 eftir 2:30 og Valskonum virðist fyrirmunað að skora. Tíu stiga munur og sjö mínútur eftir, Valsliðið byrjar lokaleikhlutan full kæruleysislega en fráköst virðast ætla að bjarga liðinu sem skorar fyrstu stigin í lokaleikhlutanum þegar 6:30 eru eftir og skora þá 6 stig í röð og ná 16 stiga forskoti þegar 5 mínútur eru eftir af leiknum. KR tekur leikhlé og KR skorar að leikhléi loknu en Valur eykur muninn í 74-53 þegar þrjár mínútur lifa af leiknum og öruggur sigur Vals í höfn en leikurinn endar með sigri Vals 80-58.
 
Valsliðið gerði það sem þurfti til að knýja fram sigur í þessum leik en leikur liðanna var ekki neitt sérstakur á að horfa, munurinn á liðunum nokkuð ljós frá upphafi.
 
 
Mynd / Torfi Magnússon 
Umfjöllun / Hannes Birgir Hjálmarsson
 
Fréttir
- Auglýsing -