Valur er Lengjubikarmeistari kvenna 2013 eftir sigur á Haukum í úrslitaviðureign keppninnar sem fram fór í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Lokatölur voru 64-63 Val í vil eftir kaflaskiptan leik. Lele Hardy fór á kostum í liði Hauka og sá um að draga vagninn á meðan framlagið dreifðist betur í Valsliðinu sem glopraði niður góðri forystu en sýndu þó seiglu að halda einbeitingu á lokasprettinum og klára verkefnið.
Úrslitaviðureignin fór fjörlega af stað, hraður leikur og góð barátta. Valskonur komust í 9-6 og síðar 13-7 þegar Ragnheiður Benónýsdóttir kom inn af tréverkinu, nældi í sitt eigið sóknarfrákast eftir skot og jók muninn í 6 stig fyrir Val. Svona hægt og bítandi sigu Valskonur framúr, liðsframlagið var flott og þeir sem komu af tréverkinu voru klárir í slaginn á meðan Haukakonur voru of hikandi í sínum aðgerðum. Ingvar og Bjarni báðu um leikhlé fyrir Hauka í stöðunni 16-10 en það stoðaði lítt því restina af fyrsta leikhluta vann Valur 11-4 og átta liðsmenn Vals náðu að skora þennan fyrsta hluta, Guðbjörg Sverrisdóttir þar með 8 stig. Staðan 27-12 Valskonur í vil fyrstu tíu mínúturnar.
Hafnfirðingar mættu með svæðisvörn inn í annan leikhluta og gerðu fjögur fyrstu stigin og minnkuðu muninn þar með í 27-16 uns Þórunn Bjarnadóttir hlóð í sveitaþrist fyrir Val og hélt Haukum á mottunni fyrir vikið. Kristrún Sigurjónsdóttir fékk snemma sína þriðju villu í öðrum leikhluta hjá Val og sást ekkert eftir það í fyrri hálfleik. Styrkleikamerki hjá Val að geta leyft sér að hafa Kristrúnu á bekknum enda voru leikmenn að koma mjög sterkir af tréverkinu svo villuvandræði Kristrúnar settu ekkert strik í Valsreikninginn.
Um miðjan leikhlutann komst Lele Hardy í tvennuna sína, 10 stig og 10 fráköst en það sárlega vantaði framlag víðar í liði Hauka. Guðbjörg Sverrisdóttir kom Val í 38-21 með þriggja stiga körfu og þá tóku Hafnfirðingar leikhlé að nýju. Valskonur voru einfaldlega umtalsvert sterkari þennan fyrri hálfleik og leiddu 42-23 í leikhléi.
Guðbjörg Sverrisdóttir var með 13 stig í liði Vals í hálfleik en allt liðið var að leika vel, spilaði sterka vörn og leikmenn óeigingjarnir í sókninni. Á sama tíma voru Haukar með öll sín egg í körfunni hjá Lele Hardy og fáir sem þorðu að taka af skarið, Hardy með 12 stig og 13 fráköst í hálfleik.
Þórunn Bjarnadóttir kom sterk inn í Valsliðið í fyrri hálfleik og byrjaði einnig þann síðari vel en það voru Haukar sem hófu þriðja leikhluta betur með 4-0 dembu. Lele Hardy hrökk ennfrekar í gírinn og minnkaði muninn í 44-30 og á sama tíma fékk Kristrún Sigurjónsdóttir sína fjórðu villu í Valsliðinu. Eftir framúrskarandi fyrri hálfleik fóru Valskonur að gefa eftir í þeim síðari og Haukar gengu á lagið. Ingvar og Bjarni hafa greinilega náð að hrista upp í sínum konum í leikhléi enda allt önnur og betri barátta í liðinu. Haukar unnu þriðja leikhluta 6-20 og náðu að minnka muninn í 48-43 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Haukar náðu að minnka muninn í 49-48 í upphafi fjórða leikhluta en náðu hvorki að jafna né komast yfir, þess í stað var Þórunn Bjarnadóttir mætt með refsivöndinn á nýjan leik og kom Val í 54-48 með þriggja stiga körfu. Valskonur slitu sig frá og náðu upp 11 stiga forystu, 61-50, þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka. Haukar, sem flestir höfðu afskrifað á þessum tímapunkti, tóku þá 8-0 rispu og minnkuðu muninn í 61-58 en lengra komust Hafnfirðingar ekki. Valskonur héldu fengnum hlut og unnu leikinn 64-63 en þrjú síðstu stig Hauka komu úr mögnuðu langskoti Lele Hardy en áður en það fór á loft var Valssigurinn ekki í hættu.
Ragna Margrét Brynjarsdóttir var stigahæst í liði Vals með 13 stig og 10 fráköst en Lele Hardy fékk 44 í framlag þegar hún skilaði af sér 28 stigum, 25 fráköstum og 8 stolnum boltum.
Valur-Haukar 64-63 (27-14, 15-9, 6-20, 16-20)
Valur: Ragna Margrét Brynjarsdóttir 13/10 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 12, Jaleesa Butler 11/5 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 10, Þórunn Bjarnadóttir 6/6 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 5, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 4, Ragnheiður Benónísdóttir 3/4 fráköst, Margrét Ósk Einarsdóttir 0, Sara Diljá Sigurðardóttir 0, María Björnsdóttir 0, Rut Konráðsdóttir 0.
Haukar: Lele Hardy 28/25 fráköst/8 stolnir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 12, Lovísa Björt Henningsdóttir 8, Gunnhildur Gunnarsdóttir 7/5 fráköst, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 4, Dagbjört Samúelsdóttir 4, Auður Íris Ólafsdóttir 0, Þóra Kristín Jónsdóttir 0, Dýrfinna Arnardóttir 0, Guðrún Ósk Ámundardóttir 0, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 0, Ína Salome Sturludóttir 0.
Mynd og umfjöllun/ [email protected]



