spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValskonur höfðu betur gegn spræku liði Grindavíkur

Valskonur höfðu betur gegn spræku liði Grindavíkur

Valur lagði Grindavík í kvöld í Subway deild kvenna, 73-63. Eftir leikinn er Valur í 3. sæti deildarinnar með 18 stig á meðan að Grindavík er í 5. sætinu með 8 stig.

Fyrir leik

Valur vann nokkuð sterkan sigur á Keflavík í síðasta leik. Þá var liðið með nýja í leikmannahópi liðsins landsliðskonuna Hildi Kjartansdóttur, sem á dögunum samdi við liðið. Þá var Embla Kristínardóttir einnig í fyrsta skipti með liðinu, en hún samdi einnig við Val á dögunum.

Grindavík mátti hinsvegar þola tap í síðasta leik gegn sterku liði Hauka. Það má þó gera því skóna að það hafi verið heldur sárt tap í spennandi leik fyrir Grindavík, svo ef allt yrði eðlilegt myndu þær mæta með blóð á tönnunum til leiks í Origo Höllinni í kvöld.

Gangur leiks

Bæði lið áttu í erfiðleikum með að koma boltanum ofaní körfuna á upphafsmínútunum. Mikið jafnræði er þó á með liðunum og þegar sá fyrsti er á enda er allt jafnt, 11-11. Valur missti eina af lykilleikmönnum sínum útaf meidda í byrjun leiks þegar Ásta Júlía Grímsdóttir fór af velli, en hún kom ekki meira við sögu í leiknum. Það losnar aðeins um hjá báðum liðum sóknarlega í upphafi annars leikhlutans. Valur nær ágætis áhlaupi um miðjan fjórðung, en Grindavík eru snöggar að svara og er leikurinn nokkuð jafn þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 33-37.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Hallveig Jónsdóttir með 8 stig á meðan að Danielle Rodriguez var komin með 14 stig fyrir Grindavík.

Valur nær aftur ágætis tökum á leiknum í þriðja leikhlutanum. Létu þær Grindavík virkilega hafa fyrir því að setja stig á töfluna í leikhlutanum. Ná þannig að fara með sex stiga forystu inn í lokaleikhlutann, 52-46. Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir á rosalega innkomu fyrir Grindavík í þriðja leikhlutanum, þar sem hún setur meðal annars tvo þrista í röð, en heimakonur svara því jafn hratt og ná að er virtist auðveldlega að halda í forystu sína. Um miðbygg fjórðungsins láta þær svo kné fylgja kviði, keyra muninn upp í 14 stig þegar 5 mínútur eru til leiksloka, 69-55. Grindavík gerir heiðarlegar tilraunir til þess að komast aftur inn í leikinn á lokamínútunum, en allt kemur fyrir ekki. Valur sigrar að lokum með 10 stigum, 73-63.

Atkvæðamestar

Kiana Johnson var best í liði Vals í dag með 12 stig, 12 fráköst, 9 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Fyrir Grindavík var það Danielle Rodriguez sem dró vagninn með 18 stigum, 8 fráköstum og 3 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 14. desember. Valur heimsækir Fjölni í Dalhús á meðan að Grindavík fær topplið Keflavíkur í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -