spot_img
HomeFréttirValsarar stilla Keflvíkingum upp við vegg

Valsarar stilla Keflvíkingum upp við vegg

Valsarar náðu í dag 2-0 forystu í undanúrslitaeinvígi liðsins gegn Keflavík í Dominos deild kvenna. Leikurinn fór fram í Valshöllinni í dag og var hann æsispennandi. 

 

Keflavík hafði forystuna í fyrri hálfleik en Valur tók við bílstjórasætinu þegar leið á seinni hálfleikinn. Lokamínúturnar voru æsispennandi en stóru skotin féllu hjá heimakonum í leiknum. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

Gangur leiksins:

 

Keflavík kom greinilega mjög ákveðið til leiks. Tók þrjú sóknarfráköst strax í fyrstu sókinni og ljóst var í upphafi að liðið ætlaði að leggja allt í sölurnar. Dinkins hafði náð stigaskori sínu frá síðasta leik strax í fyrsta leikhluta og augljósar framfarir í frammistöðu liðsins. Hinu megin var Aaliyah frábær sóknarlega fyrir Val. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 25-26 fyrir Keflavík.

 

Tilfinningin í fyrsta leikhluta var að gæðin hjá Val væru meiri en Keflavík var að halda forystunni með þristaregni. Keflavík hitti níu þriggja stiga körfum í fyrri hálfleik úr 20 skotum. Keflavík framkvæmdi sóknarleik sinn vel og fann opin skot. Stigaskorið í hálfleik var ansi hátt og staðan 48-59 fyrir Keflavík

 

Valur tók forystuna í þriðja leikhluta en aftur voru það þriggja stiga skot sem héldu Keflavík í leiknum. Emba setti tvær slíkar í röð en varnir liðanna hertust aðeins í leikhlutanum. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 63-62 fyrir Val og ljóst að lítið átti eftir að muna á liðunum í lokin. 

 

Síðasti leikhlutinn var æsispennandi. Að lokum voru það stóru skotin sem féllu með Völsurum í leiknum. Elín Sóley Hrafnkelsdótir átti risa augnablik í lokin, annars vegar með þriggja stiga körfu þegar Keflavík var að ná áhlaupi og síðar tvö víti sem kláruðu leikinn endanlega. Lokastaðan var 87-80 fyrir Val sem leiðir nú einvígi liðanna 2-0. 

 

Hetjan: 

 

Hjá Valsliðinu var Aaliyah Whiteside algjörlega mögnuð sóknarlega. Hún 31 stig, 11 fráköst, fimm stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Whiteside tók mikið til sín  og opnaði vörn Keflavíkur ítrekað með að keyra á hana og opna þá fyrir aðra leikmenn. Eins og fram kom hér að ofan var Elín Sóley einnig mikilvæg og þá er rétt að taka út framlag Ragnheiðar Benónýsdóttur í fjórða leikhluta sem reyndist mikilvægt.

 

Hjá Keflvíkingum var Brittanny Dinkins öflugust með 22 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar. Þá var Embla Kristínardóttir góð á báðum endum vallarins, hitti vel og spilaði fína vörn. 

 

 

Kjarninn: 

 

Valskonur eru nú einum sigri frá úrslitaeinvíginu og eru heldur betur búnar að stilla Íslands- og bikarmeisturum Keflavíkur upp við vegg. Valur spilaði skilvirkt sóknarlega, liðið virtist alltaf finna körfur. Varnarleikur liðsins er hinsvegar ákveðið áhyggjuefni því hann var ekki góður heilt yfir. Leikmenn of langt frá mönnum og ekki alveg í takti. Valur sýnir hinsvegar nokkra kafla þar sem vörnin smellur en ekki nóg. Aaliyah Whiteside er heldur betur að sýna það í þessari úrslitakeppni sem hún var fengin til að gera. Hún er klárlega að gera liðið betra sóknarlega og virðist alltaf geta fundið körfu þegar það vantar. 

 

Keflavík þurfa núna að finna neyðina fyrir næsta leik. Snemmbúið sumarfrí vofir yfir liðinu sem má ekki tapa fleiri leikjum í þessu einvígi. Sóknarlega er liðið oft að framkvæma vel og finna góð skot. Varnarlega er liðið hinsvegar í bölvuðu basli með að stöðva Whiteside og það sem hún gerir fyrir liðið. Það er hinsvegar alveg ljóst að liðið mun ekki leggjast niður og gefast upp í næsta leik. Þær munu berjast fyrir lífi sínu en spurningin er hvort þær eigi nægilega mikil gæði og orku til að vinna þrjá leiki í röð gegn Val á þessum tímapunkti. 

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Davíð Eldur)

 

Viðtöl eftir leik: 

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Viðtöl og myndir / Davíð Eldur

 

Fréttir
- Auglýsing -