Valencia varð á dögunum Spánarmeistari í ACB deildinni eftir 3-1 sigur á Real Madrid í úrslitaseríunni. Á leið sinni að titlinum hafði Valencia 2-1 sigur á Barcelona í 8-liða úrslitum og 3-1 sigur á Baskonia og að lokum 3-1 sigur á Real Madrid. Valencia fór því 8-3 í gegnum úrslitakeppnina í ACB deildinni sem er ansi vel af sér vikið!
Þá eins og flestum er orðið kunnugt hefur miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason samið við Valencia og verður sá samningur að teljast einn af þeim stærstu hin síðari ár fyrir íslenskan leikmann!
Sigur Valencia á Spáni er athyglisverður fyrir margra hluta sakir en þó einna helst fyrir það hve sterk og yfirþyrmandi einokun Barcelona og Real Madrid hefur verið á titlinum síðustu áratugi. Real Madrid hefur 33 sinnum orðið Spánarmeistari og Barcelona 18 sinnum. Ekkert annað lið hefur unnið titilinn 10 sinnum eða oftar.
Síðustu sex ár hefur Real Madrid eða Barcelona orðið meistari en tímabilið 2009-2010 stakk Baskona sér inn á milli með 3-0 sigri á Barcelona í úrslitum.
Bojan Dubljevic var valinn besti maður úrslitanna með 13,5 stig og 7,2 fráköst að meðaltali í leik. Með þessu varð Dubljevic þriðji leikmaðurinn frá Balkanskaganum sem verður besti maður úrslitanna á Spáni en áður hafa þeir Dejan Bodiroga og Erazem Lorbek hlotið þessa nafnbót.
Mynd/ Dubljevic besti maður úrslitanna í ACB-deildinni.