spot_img
HomeFréttirVal dæmdur sigur gegn Breiðablik - Félagið sektað um kvartmiljón

Val dæmdur sigur gegn Breiðablik – Félagið sektað um kvartmiljón

KKÍ sendi rétt í þessu frá sér yfirlýsingu þess efnis að liði Vals verði dæmdur sigur gegn Breiðablik frá fyrstu umferð Dominos deildarinnar. Breiðablik hafði upphaflega unnið leikinn, en vegna þess að félagið notaði leikmann sem átti að vera í banni, Fanney Lind Thomas, hafi sambandið snúið sigrinum við. Þá mun félagið einnig þurfa að greiða 250.000 kr. í sekt.

Fanney lék 24 mínútur í leiknum og skorði á þeim 4 stig og tók 3 fráköst.

Yfirlýsing:

Þann 23. september mættust Breiðablik og Valur í Domino’s deild kvenna í Smáranum, Kópavogi.


Um var að ræða fyrsta leik tímabilsins 2020-2021.

Fanney Lind Thomas, leikmaður Breiðabliks, var dæmd í eins leiks bann af aga- og úrskurðarnefnd KKÍ miðvikudaginn 11. mars 2020 en bannið tók gildi á hádegi 12. mars 2020. Eins og þekkt er þá var keppnistímabilinu frestað 14. mars og aflýst stuttu seinna. Fanney Lind Thomas var því ekki búin að taka út sitt leikbann á keppnistímabilinu 2019-2020. Í 13. grein reglugerðar um aga- og úrskurðarnefnd segir: „Ef leikmaður á eftir að taka út agaviðurlög þegar keppnistímabili lýkur, skal það gert í byrjun næsta keppnistímabils viðkomandi leikmanns“.

Samkvæmt leikskýrslu leiks Breiðabliks og Vals frá 1. umferð Domino’s deildar kvenna 23. september 2020 var Fanney Lind Thomas á leikskýrslu og því leikmaður í umræddum leik.

Er því vísað í 10. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót, en þar segir: „Lið sem mætir ólöglega skipað til leiks og sem notar leikmann, þjálfara eða forystumann í leikbanni telst hafa tapað leiknum í samræmi við reglur FIBA hverju sinni.“.

Enn fremur segir í 8. grein: „Ef notaður er ólöglegur leikmaður í tveimur efstu deildum karla og kvenna, bikarkeppni meistaraflokka og meistarakeppni á vegum KKÍ er sektin 250.000 kr.“. Jafnframt segir í lok 8. greinar reglugerðarinnar, „KKÍ getur beitt sektarákvæðum og breytt úrslitum leikja þegar upp kemst um ólöglega leikmenn, en þó innan yfirstandandi keppnistímabils.“.

Breiðablik tapar því leiknum sem leikinn var þann 23.9.2020 gegn Val 20-0 og fær kr. 250.000,- í sekt fyrir að nota Fanneyju Lind Thomas í umræddum leik.

Fréttir
- Auglýsing -