spot_img
HomeFréttirVafasamt met hjá Valskonum

Vafasamt met hjá Valskonum

Valskonur settu vafasamt met þessa vertíðina þegar þær héldu í Stykkishólm um helgina. Íslandsmeistarar Snæfells tóku þá Hlíðarendakonur í kennslustund, 82-38.

Fyrir leikinn voru það Hamarskonur sem áttu stigalægsta leik tímabilsins með 47 stig í 86-47 ósigri gegn Keflavík. Valskonur settu nýja metið með aðeins 38 stigum!

Eitthvað hefur bersýnilega brostið í leik Vals því fram að leik helgarinnar höfðu þær skorað 92, 68, 87, 95 og 73 stig í leikjum sínum.

Teigskotin voru 13/41 og þriggja stiga tilraunirnar urðu 15 en engin þeirra vildi í körfuna. 31 tapaður bolti stráir svo salti í sárið og niðurstaðan 38 stig. Afar athyglisverð niðurstaða því leikinn áður höfðu Valskonur lent í hörkuslag gegn toppliði Hauka þar sem Hafnfirðingar sluppu með 73-79 sigur. 

Vertíðin er löng og það munu allir gera axarsköft. Valskonur eru með spennandi lið og til alls líklegar þó ein feilnóta hafi verið slegin. 

Mynd úr safni/ Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -