15:20
{mosimage}
(Leikstjórnandi Hauka spilar ekki í kvöld en hún er stigahæst í liðinu með 26.5 stig)
Haukar heimsækja Keflavíkinga í kvöld í Iceland Express-deild kvenna. Liðið mun ekki tefla fram sínu sterkasta liði en þær Kiera Hardy og Ragna Margrét Brynjarsdótttir eru meiddar og verða því ekki með.
Yngvi Gunnlaugsson, þjálfari Hauka, staðfesti við Karfan.is að þær yrðu ekki með og þær hafi meiðst í leiknum gegn Val sem fór fram fyrir viku síðan. Kiera Hardy fékk heilahristing í leiknum þegar hún fékk höfuðhögg á meðan Ragna Margrét væri meidd á hné. Hvorug þeirra æfði að ráði fyrir bikarúrslitin á sunnudag og léku báðar meiddar í leiknum gegn Grindavík en þær eru lykilmenn í Haukaliðinu.
{mosimage}
(Þrátt fyrir ungan aldur er Ragna Margrét lykilmaður
í Haukum en hún er 17 ára gömul)
Kiera Hardy á að hvíla samkvæmt læknisráði og Yngvi vissi ekki hve lengi hún yrði frá. Hann gagnrýndi það að heil umferð í Iceland Express-deildinni skuli hafa farið fram svo skömmu fyrir bikarúrslitaleikinn. ,,Það var alltaf áhætta að spila svo skömmu fyrir bikarleik,” sagði Yngvi og bætti við. ,,Ég geri mér fyllilega grein fyrir að leikmenn geta alltaf meiðst á æfingum en þá stýrum við álaginu.”
Það er óvíst hversu lengi Ragna Margrét verður frá en hún átti erfitt með að ganga eftir leikinn við Val vegna þess hversu bólgið hnéið á henni var.
Haukar eru í 4. sæti með 26 stig á meðan Keflvíkingar eru með 34 stig á toppi deildarinnar. Með sigri í kvöld geta Keflvíkingar tryggt stöðu sína á toppi deildarinnar.
Myndir: [email protected] og [email protected]



