María Ben Erlingsdóttir og félagar í UTPA háskólanum í Bandaríkjunum luku keppni í deildinni um síðustu helgi og höfnuðu þær í 2. sæti deildarinnar með 8 sigra og 4 tapleiki. Úrslitakeppni Great West deildarinnar hefst strax á morgun þegar UTPA mætir Houston Baptist skólanum.
Síðasta deildarviðureign UTPA fór fram um síðustu helgi þar sem María og félagar steinlágu á útivelli 101-61 gegn toppliði North Dakota. María var í byrjunarliðinu og skoraði 3 stig í leiknum, gaf 4 stoðsendingar og tók 3 fráköst á þeim 19 mínútum sem hún spilaði.
Houston Baptist skólinn hafnaði í neðsta sæti Great West deildarinnar og síðast þegar Houston Baptist og UTPA mættust höfðu María og félagar nauman 77-76 sigur svo gera má ráð fyrir hörkuviðureign hjá liðunum annað kvöld.



