Helgi Magnússon og félagar í Uppsala Basket gerðu góða ferð í Solnahallen í kvöld þar sem þeir lögðu Loga Gunnarsson og liðsmenn Solna Vikings. Helgi er fyrrum leikmaður Solna sem með seinni skipunum í sumar skipti frá Solna yfir í Uppsala. Lokatölur í Solnahallen voru 67-72 Uppsala í vil.
Helgi gerði 12 stig og tók 6 fráköst fyrir Uppsala en Logi Gunnarsson gerði 18 stig og var stigahæstur Solnamanna ásamt því að taka 2 fráköst.
Þá höfðu Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson útisigur gegn ecoÖrebro 89-99. Hlynur splæsti í myndarlega tvennu með 18 stig og 12 fráköst en Jakob Örn var með 19 stig, 5 fráköst og 8 stoðsendingar.



