,,Þetta gerist líklega þegar utanaðkomandi búnaður truflar leikklukkuna sem er þráðlaus,” sagði Óli Öder framkvæmdastjóri Laugardalshallar en hann hafði samband við Karfan.is vegna greinarinnar ,,Andris þegar búnaðurinn virkar ekki.” Tafir á bikarúrslitaleikjum karla og kvenna um helgina urðu nokkrar vegna bilana sem komu upp m.a. í skotklukku.
,,Svona svipaðar truflanir hafa einnig komið upp á handboltaleikjum en bæði leikklukkan og skotklukkan notast við tíðnir líkt og í beinum sjónvarpsútsendingum. Þetta er verið að rannsaka en okkur grunar að þarna eigi truflanirnar sér uppruna, þ.e. frá utanaðkomandi búnaði,” sagði Óli og áréttaði að vissulega væru allir að gera sitt besta við framkvæmd jafn stórra viðburða.
,,Búnaðurinn var allur prófaður á miðvikudegi og föstudegi en á sjálfum leikdegi þá kemur þetta upp,” sagði Óli og vísaði þannig í að þegar búnaðurinn var prófaður var ekkert utanaðkomandi áreiti í húsinu. Hvort það séu allir snjallsímarnir sem mæta á leiki eða allur sá búnaður sem þarf til sjónvarpssútsendinga þá er unnið að því að komast til botns í málinu til að forðast að svona endurtaki sig.
Athygli vekur að sú karfa á leikvellinum sem var mest til vandræða var karfan sem var við sama útgang og útsendingabíll RÚV var staðsettur og við hlið körfunnar var sérfræðingahorn RÚV svo umtalsverður búnaður var bæði í kringum, á og við körfuna sem þurfti að taka niður og skoða.
Óli upplýsti einnig að búið væri að senda fyrirspurn til framleiðanda búnaðarins, þ.e. leikklukku og skotklukku til að fá úr því skorið hvað gæti mögulega verið að valda þessum truflunum. Beðið væri svara frá framleiðanda.
Þá áréttaði Óli Öder að Laugardalshöllin væri ekki þjóðarleikvangur og leiðréttist það hér með. ,,Það er ekkert að koma til sem fylgir nafnbótinni þjóðarleikvangur. Það hefur verið reynt í mörg ár að fá Laugardalshöllina sem þjóðarleikvang en þá þarf að koma til rekstrarfé. Auðvitað væri það óskandi að ríkið styrkti hús til að standa undir svona nafni og vonandi fæst það í gegn sem fyrst,” sagði Óli og Höllin því ekki réttnefndur þjóðarleikvangur að hans mati en Óli sagði að sjálfsögðu væri húsnæðið þjóðarleikvangurinn í huga allra landsmanna.



