09:17:28
Utah Jazz bundu enda á sjö leikja sigurgöngu LA Lakers í nótt þegar þeir fögnuðu góðum sigri á heimavellli sínum 113-109. Það var ekki síst að þakka stórleik frá Deron Williams, sem var með 31 stig og 11 stoðsendingar. Leikurinn var jafn allan tímann en Jazz hafði frumkvæðið framan af fjórða leikhluta áður en Kobe Bryant og Lamar Odom komu þeim aftur inn í leikinn. Á lokasprettinum voru heimamenn þó sterkari og náðu að kreista út mikilvægan sigur.
Á meðan unnu Boston Celtics sigur á New Orleans Hornets, 89-77, þar sem Chris Paul var kominn aftur inn í lið Hornets eftir fjögurra leikja fjarveru vegna meiðsla. Leikurinn var tilþrifalítill hjá báðum liðum, en sterk frammistaða Paul Pierce skildi á milli. Pierce var með 30 stig á meðan Kevin Garnett var með 16 og Ray Allen var með eitt stig og hitti ekki úr einu einasta skoti utan af velli.
Nánar um leikina hér að neðan… Þá rétti Cleveland úr kútnum eftir tvö töp í röð og lögðu Phoenix að velli, 109-92, þar sem LeBron James lét meðreiðarsvein sinn Mo Williams sjá um hetjutilburðina. Williams, sem var nýlega valinn í Stjörnulið Austurdeildarinnar skoraði 44 stig í leiknum, en Cleveland kláruðu leikinn hér um bil með góðum kafla í öðrum leikhluta.
San Antonio Spurs hafa verið á góðri siglingu að undanförnu, en máttu sætta sig við óvænt tap gegn vængbrotnu liði Toronto Raptors, 91-89. Króatíski nýliðinn Roko Ukic nýtti sér tækifærið í fjarveru José Calderon og skoraði 22 stig fyrir Toronto, en Manu Ginobili var með 32 fyrir Spurs. Tony Parker hafði möguleika á að jafna leikinn með flautuskoti í lok leiks, en það geigaði.
Loks má geta þess að Milwaukee Bucks unnu enn einn sigurinn þrátt fyrir gífurleg meiðslavandræði þegar þeir lögðu Indiana Pacers 110-122. Leiksins verður eflaust minnst fyrir frammistöðu Ramon Sessions sem skoraði 15 stig og gaf 17 stoösendingar, þar af 13 í fyrri hálfleik.Bucks eru sem stendur í áttunda sæti Austurdeildarinnar og halda dauðahaldi í sætið sem gæti tryggt þeim þátttöku í úrslitakeppninni í vor.
Þrír leikir fara fram í kvöld og nótt áður en Stjörnuhelgin í Phoenix fer af stað.
Hér eru úrslit næturinnar:
Washington 89
Charlotte 101
Memphis 87
Philadelphia 91
San Antonio 89
Toronto 91
Phoenix 92
Cleveland 109
Denver 82
Orlando 73
Atlanta 99
Detroit 95
Indiana 110
Milwaukee 122
Boston 89
New Orleans 77
Sacramento 82
Houston 94
LA Lakers 109
Utah 113
Oklahoma City 92
Portland 106
New York 124
LA Clippers 128
ÞJ



