Ruslið velur úrvalslið deildarkeppninnar, besta leikmann og þjálfara. Valið er ekki huglægt heldur byggt á tölfræði. Skilvirkni spilar stóran þátt í vali bestu leikmanna skv. aðferðum Ruslsins, en ekki persónulegt álit undirritaðs á umræddum leikmönnum
G: Elvar Már Friðriksson (NJA) – þrátt fyrir að ná ekki að halda sömu keyrslu áfram og hann var á á fyrri hluta tímabils endaði Elvar samt sem áður næstefstur íslenskra leikmanna í PER með 25,5. Mjög hátt A/TO hlutfall eða 2,092 og 1,108 stig per sókn. Með 33,9% AST% sem þýðir að 33,9% af körfum leikmanna Njarðvíkur komu frá stoðsendingu frá Elvari á meðan hann var inni á vellinum.
G: Martin Hermannsson (KR) – einn allra skilvirkasti leikmaður deildarinnar með 1,280 stig per sókn, 56,5% sóknarnýtingu og vegur skotnýting hans ansi þungt líka eða 61,6% eFG% í vetur. Martin skaut 92 þriggja stiga skotum og hitt úr 45 þeirra í vetur sem gerir 48,9%. Hann er einnig með töluvert hátt A/TO hlutfall eða 1,922.
F: Michael Craion (KEF) – leiddi deildina í PER með 35,4 og skoraði 1,288 stig per sókn. Afburðahá sóknarnýting eða 64%. Skaut boltanum mjög vel í vetur eða 61,9% eFG%.
F: Sigurður Þorsteinsson (GRI) – tók mjög góðan sprett á seinni hluta deildarinnar og hækkaði sig í PER úr 20,6 og upp í 25,8 sem var best íslenskra leikmanna í deildinni. Varði 3,7% af öllum skottilraunum andstæðinga sinna á meðan hann var inni á vellinum. Skoraði 1,192 stig per sókn og nýtti 56,6% sókna til að skora eitt stig eða meira.
C: Ragnar Nathanaelsson (ÞÓR) – ef valdar væru mestar framfarir í Dominosdeild karla væri Raggi Nat skotheldur í þeim flokki. 23,2 í PER sem er fjórða besta allra íslenskra leikmanna. 39,1% TRB% og hlutfall sóknarfrákasta enn hærra eða 62,1% sem er langhæst allra í deildinni. Til að setja þetta í samhengi þá hirti hann 62,1% allra sóknarfrákasta sem í boði voru á meðan hann lék inni á vellinum. Hann varði 4,9% allra skottilrauna andstæðinga og nýtti 63,8% sókna sinna til að skora eitt stig eða meira.
MVP: Sigurður Þorsteinsson (GRI)
Þjálfari ársins: Finnur Freyr Stefánsson (KR) – 21 sigurleikur og aðeins eitt tap segir allt sem segja þarf. Sumir segja að það sé ekki hægt að klikka þegar þú hefur úr svona mannskap að spila en þegar vel gengur reyna öll önnur lið að stúdera þitt lið og finna veikleika í því. Finnur vann gott starf í að stoppa í öll þannig göt og halda sterkum hópi leikmanna einbeittum að því verki sem var fyrir hendi.
Honorable mentions:
Við val á bestu leikmönnum deildarinnar er erfitt að horfa framhjá Pavel Ermolinskij (KR) og þrennunum hans sjö. Það eitt er afrek sem undirritaður er ekki að sjá leikið eftir á næstunni, nema þá einna helst ef Pavel bæti við það sjálfur á næstu leiktíð. Skilvirknin hjá Pavel var mjög góð en ekki betri en þeirra sem að framan eru nefndir. Pavel leiddi þó deildina í hlutfalli varnarfrákasta þar sem hann hirti 44,4% allra varnarfrákasta sem í boði voru á meðan hann lék inni á vellinum. Pavel var einnig með mjög hátt A/TO eða 2,158.
Benjamin Curtis Smith (SKA) kom inn á seinni hluta deildarinnar og olli töluverðum usla. Endaði annar í PER með 31,8 og A/TO hlutfall upp 3,520. Hann skoraði 32,5 stig í leik. Smith endaði með 45% AST% sem er ótrúlegt og að sjálfsögðu það langhæsta í deildinni.



