spot_img
HomeFréttirÚrslitin á Ítalíu hefjast á þriðjudag

Úrslitin á Ítalíu hefjast á þriðjudag

7:00

{mosimage}

Næstkomandi þriðjudag hefst úrslitaeinvígi Montepaschi Siena og Lottomatica Roma í ítölsku deildinni. Okkar maður Jón Arnór Stefánsson leikur eins og kunnugt er með Roma og á hann því möguleika á að vinna þriðja titil sinn úti í hinum stóra heimi en vorið 2005 varð hann Evrópumeistari með Dynamo St. Petersborg og ári seinna bikarmeistari með Napolí á Ítalíu. Karfan.is ætlar aðeins að hita upp fyrir leikinn og við byrjum á að kynna okkur félögin tvö og sögu þeirra.

Montepaschi Siena er nafnið á körfuknattleiksfélagi Mens Sana Basket sem var stofnað 1871 í bænum Siena og eru taldir vera fyrsta félagið sem spilaði skipulagðan körfubolta á Ítalíu auk þess sem félagið er elsta íþróttafélagið á Ítalíu. Þeir sinntu þó íþróttinni að mestu á heimavelli allt fram til 1973 þegar liðið komst í efstu deild á Ítalíu. Eftir 1990 fór félagið svo að láta að sér kveða í Evrópu og eftir aldamótin hefur liðið verið eitt af bestu félgöum Evrópu. Unnu Saporta Cup 2002, ítölsku deildina 2004 og 2007 og tvisvar komist í keppni hinna fjögurra fræknu í Meistaradeildinni.

Liðið hefur aðeins tapað 3 leikjum á Ítalíu í vetur og því ljóst að á brattann verður að sækja fyrir Roma í einvíginu. Heimavöllur félagsins heitir Palasport Mens Sana og tekur 6500 áhorfendur í sæti.

Borgin Siena er í Toscanahérðaði sem er næsta hérað norðan við Lazio sem Róm stendur í og eru aðeins 230 km á milli bæjanna. Í Siena búa um 54 þúsund íbúar.

Lottomatica Roma er öllu yngra félag, stofnað 1960 og heitir í raun Pallacanestro Virtus Roma en er kallað eftir stuðningsaðila sínum, Lottomatica. Félagið varð til við samruna tveggja félaga, San Saba og Gruppo Borgo Cavalleggeri. Félagið vann sinn síðasta og eina Ítalíumeistaratitil 1983, árið 1984 unnu þeir Meistaradeildina og 1986 og 1992 unnu þeir Korac Cup. Félagið hefur verið með í Meistaradeildinni undanfarin ár og komist í upp úr riðlakeppninni undanfarin ár.

Heimavöllur félagsins heitir PalaLottomatica og tekur 11200 áhorfendur í sæti.

Eins og nafn félagsins gefur til kynna kemur félagið frá Róm sem er höfuðborg Ítalíu og þar búa um 2,7 milljónir íbúa.

Fyrsti leikurinn fer fram á þriðjudag á heimavelli Siena en fyrstu tveir leikirnir verða leiknir þar, þriðjudaginn 3. júní og fimmtudaginn 5. júní. Þá halda liðin til Rómar og leika þar sunnudaginn 8. og þriðjudaginn 10. Sigra þarf fjóra leiki og fari svo að leika þurfi fleiri en fjóra leiki skiptast liðin á heimavöllum þar til annað liðið hefur sigrað fjórum sinnum.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -