spot_img
HomeFréttirÚrslitaspá: Ívar Ásgrímsson

Úrslitaspá: Ívar Ásgrímsson

22:00
{mosimage}

(Ívar Ásgrímsson)

Það stóð ekki á Hafnfirðingnum Ívari Ásgrímssyni þegar Karfan.is leitaði til hans eftir spá fyrir oddaleik Hauka og KR í Iceland Express deild kvenna á miðvikudagskvöld. Við skulum sjá hvað Ívar hefur að segja um stórleik ársins í kvennakörfunni þar sem Íslandsmeistaratitillinn er að veði.

,,Frábært fyrir körfuna að það skuli koma til oddaleiks á milli þessara tveggja jöfnu liða. Hef séð síðustu tvo leiki þessara liða og hafa báðir leikirnir verið mjög jafnir. Það sem hefur einkennt leiki þessara liða, að mínu mati, er mikil barátta, varnar- og stöðubarátta sem hefur leitt af sér mikið af mistökum hjá báðum liðum. Liðin eru að brenna mikið af opnum færum, meira að segja eru leikmenn að missa töluvert af sniðskotum (lay-up) og gera mikið af sendingafeilum. Skemmtanagildið er því meira þar sem leikmenn eru að leggja sig fram og þá er maður tilbúinn að horfa framhjá mistökum, upp að vissu stigi.

Ef litið er á liðin og þau borin saman þá er það mitt mat að Haukar eigi að vinna þennan leik. Haukar eru með þrjá góða bakverði (Knight, Kristrúnu og Slavicu). Vandamálið hefur aftur á móti verið að Kristrún og Slavica hafa ekki verið að spila eins vel og þær gerðu fyrir áramót og þá sérstaklega Kristrún en hún hefur verið „off“ alla úrslitakeppnina og var hún að spila sinn slakasta leik sem ég hef séð til hennar í langan tíma í 4 leiknum á móti KR og er eins og hana vanti allt sjálfstraust. Slavica hefur ekki verið að spila illa en hún hefur kannski ekki heldur verið frábær, eins og hún var fyrir áramót og það er vonandi fyrir Haukana að þær tvær stígi upp og eigi frábæran leik, en þá held ég að KR eigi ekki mikla möguleika. Knight er ágætis leikmaður og kannski sá leikmaður Hauka sem getur stoppað Hildi.  Hún er gríðarlega fljót og oft finnst manni að hún eigi að geta mikið meir og það lítur oft út eins og hún sé í lélegu úthaldi. Haukar eru einnig með góða stóra leikmenn, Ragna hefur verið dálítið mistæk, ekki bara á milli leikja heldur í leikjunum sjálfum og þarf að spila heilan leik vel. Hún er besti leikmaðurinnn í teignum af þessum báðum liðum og því er hún mjög mikilvæg fyrir Haukana. Haukar eru svo einnig með Telmu sem er góður frákastari og varnarmaður en vantar töluvert uppá sóknina og svo er Guðbjörg að koma inná, en það er sama með hana og Kristrúnu að það vantar eitthvað sjálfstraust hjá henni og er eins og hún viti ekki alveg hvaða hlutverk henni sé ætlað í liðinu.  Haukar verða aftur á móti að finna svar við varnarleik KRinga (sem Keflavík tókst ekki) og þurfa að hætta að dripla svona mikið og finna fríu skotin.

KR liðið er búið að vera gríðarlega öflugt eftir áramót og með komu Köru hafa þær styrkst alvega gríðarlega, ekki bara körfuboltalega heldur líka andlega. Samt sem áður er Hildur sá leikmaður sem hefur þetta í sínum höndum. Hún er búin að vera ótrúlega öflug í úrslitakeppninni og hefur svo að segja verið óstöðvandi.  Það hjálpar henni mikið að KRingar eru ekki með stóran trukk inní miðjunni og keyrir hún mikið þangað inn og ef hún kemst að vítalínu er nánast öruggt að hún skorar eða þá að það er brotið á henni. Mér verða minnisstæð orð Stulla Örlygs (pabba Köru) er hann sagði í leiktíma er hann var að þjálfa Þór Akureyri að þeir ættu að gefa boltann á hann og þá gæti einungis þrennt gerst 1. Að hann skoraði, 2. Að hann færi á vítalínuna og 3. Að hann gæfi stoðsendingu. Þetta finnst manni eiga við Hildi í dag eins og hún er að spila. Jói (þjálfari KR) er búinn að gera vel í því að fá til sín leikmenn sem eru tilbúnar að leggja sig fram og lætur þær spila vel saman í vörn og þær berjast fyrir hverjum einasta bolta. Þær eru með leikmenn eins og Guðrúnu Gróu sem hefur verið að spila vel í vetur og það er eins og hún viti ekki hvað er að gefast upp, Helga Einars og systurnar eru líka góðir liðsmenn og leggja sig fram í vörn og Sigrún á það til að hitta mjög vel fyrir utan 3ja stiga línuna.

Mitt mat er að Haukar sigri oddaleikinn, þær eru með fleiri leikmenn sem geta skorað, þær eru reyndari í þessari stöðu, þær eru með heimavöllinn og síðast en ekki síst þá trúi ég ekki að Kristrún spili annan eins leik og hún gerði á sunnudaginn.

Ég verð að enda þetta á því að tala um dómarana, þar sem þeir búast örugglega við því að ég segi eitthvað um þá. Þeir hafa verið að leyfa töluverða hörku sem ég tel af hinu góða. Þeir hafa staðið sig nokkuð vel í þessum tveim leikjum sem ég hef séð og þeir hafa gert mun færri mistök en leikmennirnir. Vona að það verði okkar bestu dómarar á miðvikudaginn (Kristinn og Simmi), ekki í fyrsta skiptið sem ég segi þetta og að þeir haldi þessari línu sem þeir hafa verið með. Að mínu mati græða Kringar meira á því að dómarar leyfa meiri hörku en svona er körfuboltinn í dag og góðir leikmenn stíga upp er harkan og spennan verður meiri. Nú er fjör í körfunni, maður verður fúll ef maður mætir á leik og það verður ekki framlenging,“ sagði Ívar Ásgrímsson.

Fréttir
- Auglýsing -