18:00
{mosimage}
(Einar Árni Jóhannsson)
Einar Árni Jóhannsson rýnir hér í oddaviðureign Hauka og KR sem fram fer á miðvikudagskvöld að Ásvöllum. Það lið sem vinnur verður Íslandsmeistari. Við skulum sjá hvernig stórleikurinn leggst í Einar Árna.
,,Það er bara mikil spenna í manni fyrir þessum leik. Ég fór á leik 3 á Ásvöllum þar sem var biluð spenna og dramatíkin allsráðandi. Mér fannst KR liðið sýna ótrúlega seiglu með því að vera inn í þeim leik þar sem þær voru ekki að hitta vel utan af velli og voru án Helgu Einars sem hefur átt flott tímabil. Haukarnir sýndu reyndar líka ofboðslega mikinn karakter að klára það dæmi því það er ekkert auðvelt að vera búnar að fagna sigri einsog þær gerðu heldur snemma og KR jafnar svo á hálfótrúlegan hátt. Ég sá svo sviptingaleik á KR-TV í gær þar sem maður hélt lengi vel í fyrri hálfleik að titillinn færi á loft þetta kvöldið, en KR liðið sýndi þá styrk sinn varnarmegin og Hildur var mjög öflug á hinum endanum.
Nú eru liðin bæði búin að vinna heima og að heiman svo heimavöllurinn er algjört aukaatriði í þessum leik. Mér finnst Ragna Margrét hafa verið gríðarlega sterk fyrir Haukana og hennar framlag gerði t.d. gæfumuninn að mínu mati í leik þrjú en vissulega hafa erlendu stelpurnar líka skilað stóru framlagi. Hjá KR er dugnaðurinn eiginlega aðalsmerkið. Þetta alíslenska lið hefur sýnt mikla seiglu í vetur og þær eru þegar Bikarmeistarar og eiga núna eitt skref í að gera tímabilið ógleymanlegt – að vinna tvöfalt án erlendra leikmanna. Hildur og Sigrún þurfa að eiga góðan leik sóknarlega en svo er það þessi magnaða dugnaðar-þrenna; Guðrún Gróa, Margrét Kara og Helga Einars sem þurfa að skila stórum framlögum, en þær eru ótrúlega drjúgar þó þær séu ekkert alltaf að skila háu stigaskori. Ég ætla að tippa á að minn gamli liðsfélagi Margrét Kara, og hennar samherjar standi uppi sem Íslandsmeistari á miðvikudagskvöld þar sem brjálaður varnarleikur verður í hávegum hafður. Lokatölur 61-59 og maður reiknar með því að ekki bara Haukar og KR fjölmenni heldur allir áhugamenn um körfubolta því þessir leikir hafa verið frábær skemmtun til þessa,“ sagði Einar Árni Jóhannsson.



