Úrslitakeppnin í dönsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik er hafin og þar eru Íslendingar að láta að sér kveða. Í raun er að ræða um Íslendingaslag þar sem Bakken Bears og Horsens IC mætast í 8-liða úrslitum og Bakken hafa yfir 1-0 eftir 83-76 eftir fyrsta slag liðanna.
Bakken Bears luku keppni í 2. sæti deildarinnar en þar leikur Guðni Valentínusson en Horsens IC hafnaði í 7. sæti deildarinnar en þar á mála eru þeir Sigurður Þór Einarsson og Halldór Karlsson.
Guðni lék í rétt rúmar 3 mínútur í fyrsta leik liðanna og tók eitt frákast en náði ekki að komast á blað í stigaskorinu. Sigurður Einarsson lék í rúmar 12 mínútur í liði Horsens og skoraði 3 stig í leiknum og tók 3 fráköst en Halldór var ekki í leikmannahópi Horsens.
Þá er Anders Katholm, fyrrum leikmaður Snæfells, einnig í hópi Horsens og gerði hann 8 stig og tók 5 fráköst í leiknum. Næsta viðureign Horsens og Bakken fer fram á heimavelli þeirra Sigurðar og Halldórs á sunnudaginn kemur.
Liðin sem mætast í úrslitakeppninni í Danmörku:
Bakken Bears – Horsens IC
Svendborg Rabbits – Aalborg Vikings
SISU CPH – Aabyhoj IF
Horsholm 79ers – Team Fog Næstved



