Veislan vestur um haf hefst í kvöld þegar úrslitakeppni NBA deildarinnar leggur upp í langferð. Fjórir leikir eru á dagskránni í kvöld en það eru stórliðin New York Knicks og Boston Celtics sem leika sjálfan opnunarleikinn í Madison Square Garden. Þá mætast einnig Denver og Golden State, Brooklyn og Chicago og svo eigast við LA Clippers og Memphis. Hannes Birgir Hjálmarsson fer hér yfir málin að neðan:
AUSTURDEILD
Miami Heat-Milwaukee Bucks
Miami er besta lið deildarinnar í vetur og hafa sloppið vel með meiðsli lykilmanna, auk þess sem kjarninn hefur spilað saman í þrjú ár og hafa reynslu af því að vinna titil frá því í fyrra. Besti leikmaður deildarinnar, LeBron James hefur verið skörinni hærra en þeir bestu sem á eftir koma í deildinni. James hefur verið ótrúlega öflugur í vetur og varla veikan blett að finna í leik hans. Hann hefur leikið allar stöður í leikjum vetrarins, bakvörð, framherja og miðherja alveg eftir því hvað hentar gegn andstæðingnum hverju sinni. Þá er hann besti varnarmaður liðsins. Dwayne Wade hefur átt við smávægileg meiðsl að stríða en er ótrúlegur leikmaður sérstaklega sóknarlega. Chris Bosh hefur leikið mjög vel og viðbótin í Ray Allen hefur gert liðið enn sterkara. Milwaukee hefur tvo stórskemmtilega bakverði Monta Ellis og Brandon Jennings en möguleikar liðsins gegn Miami eru litlir sem engir.
Spá: Miami í 4 leikjum
New York Knicks-Boston Celtics
New York liðið hefur verið á mikilli siglingu ekki síst síðustu mánuði tímabilsins þegar Carmelo Anthony fór mikinn sóknarlega og var með yfir 35 stig í átta leikjum í röð í mars og apríl. New York liðið stendur og fellur með Anthony og ef eitthvað lið getur hægt á honum í fyrstu umferð þá er það lið Boston sem er með 3-4 leikmenn sem geta skipst á að dekka Anthony og dreifa hugsanlegum villum. Boston liðið er á síðustu metrunum með Paul Pierce og Kevin Garnett en þeir eru enn lykilmennirnir í liðinu. Liðið fer eins langt og þeir tveir geta komið liðinu en sögusaginr eru uppi um að þeir leggi körfuboltaskóna á hilluna eftir þessa úrslitakeppni. Grífurleg pressa er á New York liðinu og ekki síst Anthony, pressa sem ég spái að liðið ráði ekki við að þessu sinni.
Spá: Boston í 6 leikjum
Indiana Pacers-Atlanta Hawks
Indiana missti sinn besta leikmann, Danny Granger í allan vetur en er eitt af betri varnarliðum deildarinnar. Paul George hefur stigið upp í fjarveru Granger og Roy Hibbert miðherja Indíana fer fram með hverju árinu og gæti átt góða seríu gegn Atlanta. Josh Smith er aðalmaðurinn hjá Atlanta sem tapaði fimm af síðustu sjö leikjum sínum á tímabilinu en hann dugir ekki gegn vörn Indiana.
Spá: Indiana í 6 leikjum
Brooklyn Nets-Chicago Bulls
Enn velta menn fyrir sér hvort Derrick Rose spili með Chicago í úrslitakeppninni en líkurnar eru hverfandi. Deron Williams leikstjórnandi Brooklyn hefur leikið frábærlega seinni hluta tímabilsins og gæti leitt liðið áfram ásamt Brook Lopez. Stóru mennirnir í Chicago og þá sérstaklega Joakim Noah verða að taka á honum stóra sínum eigi liðið að eiga möguleika gegn Brooklyn.
Spá: Brooklyn í 7 leikjum
VESTURDEILD
Oklahoma City Thunder-Houston Rockets
Talandi um skemmtilegar tilviljanir, James Harden var seldur frá Oklahoma til Houston fyrir tímabilið og byrjaði tímabilið með látum en síðan hefur hægt á Houston liðinu en Oklahoma sem tapaði fyrir Miami í úrslitum í fyrra er reynslunni ríkara og með tvo af bestu leikmönnum deildarinnar Kevin Durant og Russel Westbrook. Stór munur á liðunum er að Oklahoma spilar vörn en Houston ekki! Hér gæti orðið heilmikið drama í leikjunum sjálfum en Oklahoma er of sterkt fyrir Houston að minu mati og klárar seríuna nokkuð auðveldlega.
Spá: Oklahoma í 5 leikjum
San Antonio Spurs-Los Angeles Lakers
Los Angeles stóð tæpt að ná inn i úrslitakeppnina en tókst með sigri í síðasta leiknum að tryggja sér sjöunda sætið. Það verður þó skammgóður vermir því liðið hefur verið ótrúlega óheppið með meiðsli í vetur og besti leikmaður liðsins sem nánast kom liðinu í úrslitakeppnina, Kobe Bryant verður fjarri góðu gamni eftir að hafa slitið hásin í einum af síðustu leikjum vetrarins. Nú fá Dwight Howard og Pau Gasol tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. San Antonio missti af efsta sæti vesturdeildarinnar á síðustu vikum leiktíðarinnar. Reynsluboltarnir í San Antonio þeir Tim Duncan og Tony Parker munu sjá til þess að San Antonio sigri höfuðandstæðinga sína til margra ára nokkuð auðveldlega.
Spá: San Antonio í 5 leikjum
Denver Nuggets-Golden State Warriors
Þessi rimma gæti orðið ein sú skemmtilegasta í átta liða úrslitum Vesturdeildar en bæði lið spila hraðan og skemmtilegan sóknarbolta. Ty Lawson og Andre Iguodala sjá um stigaskorið hjá Denver. Stephen Curry úr Golden State setti NBA met í fjölda þriggja stiga karfa og hefur örugglega skotleyfi hvar sem er á vellinum. Klay Thompson og Harrison Barnes eru skemmtilegir leikmenn sem eru einnig duglegir við stigaskorun. Fjarvera Danilo Gallinari úr Denver liðinu gerir gæfumuninn í þessari seríu sem verður með hæsta meðaltalsskorið enda vörn ekki höfuðáhersla þessara liða!
Spá: Golden State í 6 leikjum
Los Angeles Clippers-Memphis Grizzlies
Memphis stóð sig vonum framar í úslitakeppninni í fyrra og mætti ætla að sú reynsla nýtist þeim í þessari seríu. Marc Gasol og Zack Randolph leiða Memphis liðið. Los Angeles með Chris Paul og Blake Griffin í broddi fylkingar nýta heimaleikjaréttinn og sigra í dramatískum oddaleik þar sem reynsla Chauncey Billups gerir gæfumuninn!
Spá: Los Angeles í 7 leikjum
Hannes Birgir Hjálmarsson