spot_img
HomeFréttirÚrslitakeppni kvenna – getum við virkilega ekki betur?

Úrslitakeppni kvenna – getum við virkilega ekki betur?

Nú er í gangi hápunktur körfuboltans, úrslitakeppnirnar í Dominosdeild karla og kvenna. Vorboðinn ljúfi og skemmtunin aldrei meiri. En ég get ekki á mér setið og verð að tjá mig um sjónvarpsútsendingar á kvennaleikjunum.

Ég tók saman þann fjölda af beinum útsendingum sem Stöð2Sport er búið að sýna frá úrslitakeppni karla en ætla ekki að koma með þær tölur hér einfaldlega vegna þess að þar er verið að gera frábæra hluti. Ætlunin mín er ekki að rakka niður allan þann fjölda leikja sem er sýndur karlamegin því við viljum sem flesta leiki í sjónvarpið og þannig eiga hlutirnir að vera, en samanburðurinn er einfaldlega hlægilegur og til skammar. Vissulega eru fleiri leikir hjá körlunum enda byrja þeir í 8-liða en hlutfallslega er himinn og haf þarna á milli.

Það voru sjö leikir í undanúrslitum kvenna, ekki einn leikur var sýndur beint í sjónvarpinu en HaukarTV sáu til þess að það var sendur einn leikur út á netinu af þessum sjö. Ég var stödd í Skagafirðinum þegar fyrsti leikur í viðureign Snæfells og Keflavíkur fór fram, ég kíkti inn á kki.is þar sem leikurinn var auglýstur og undir honum stóð – lifandi tölfræði á kki.is. Þetta hlaut að vera eitthvað grín og mér varð hugsað til þess þegar ég bjó 16 ára á Sauðárkróki og sendi Arnari Björnssyni e-mail og spurði af hverju það væri ekki hægt að sýna einn leik frá úrslitakeppni kvenna á meðan þeir dældu út leikjum karlamegin. Það hefur einfaldlega alltof lítið breyst á þessum 11 árum. 

En hverjum er um að kenna? Það er ekki markmiðið mitt með þessum pistli að fara að benda fingrum á ákveðna aðila, enda tel ég þetta ekki vera einhverjum einum um að kenna, heldur er ég að vonast til þess að við sem körfuboltahreyfing getum breytt þessu. Ég tel það jafn mikið okkur leikmönnum um að kenna að berjast ekki meira fyrir tilveru okkar en hefur verið gert. Við erum að láta valta yfir okkur og enginn segir neitt nema tuða í sínu eigin horni. Nú sýndi Stöð2Sport leik nr. 2 í úrslitaviðureign milli Snæfells og Keflavíkur og vonandi fara þeir í Stykkishólm á mánudaginn en þetta er einfaldlega of lítið. Það hlýtur að vera vilji hjá körfuboltahreyfingunni á Íslandi að standa betur vörð um stelpurnar sínar. 

Hver lausnin er nákvæmlega þarf að skoða, hvort hægt væri að fjölga útsendingum á netinu ef sjónvarpið er ekki í boði og eru þetta allt atriði sem þyrfti að ræða. Það hlýtur að vera hægt að gera hlutina betur því eins og þeir eru núna að þá eru þeir ekki boðlegir. Eftirspurnin er vissulega til staðar og hafa þessir leikir verið frábær skemmtun hjá stelpunum, jafnt sem strákunum. 

Áfram körfubolti. 

Kær kveðja, 
Helga Einarsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -