Bikarmeistarar Grindavíkur mæta Þór Þorlákshöfn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Grindavík er besta varnarlið deildarinnar skv. FourFactors og heldur andstæðingum sínum í 94,5 stigum per 100 sóknir að meðaltali. Þór spilar hraðan bolta eða 87,7 í pace en Grindavík er alls ekkert illa við það heldur þannig að liðin passa hvort öðru hvað það varðar. Venjan er samt sem áður að leikurinn hægist umtalsvert í úrslitakeppni og þá er spurning hvernig það hentar Þór. Vörn Þórsara mætti vera betri en þeir leyfa 104,3 stig per 100 sóknir. Andstæðingar þeirra fara lítið á línuna og sækja aðeins 14,9% stiga sína þangað og hitta 72,5% sem er yfir meðaltali deildarinnar.
Barátta þeirra Sigurðar Þorsteinssonar og Ragnars Nathanaelssonar verður áhugaverð og munu sóknarfráköst Ragnars vega þungt í þessari seríu. Grindvíkingar taka um 21 þriggja stiga skot í leik og ef skytturnar þeirra fara að hitta vel á róðurinn eftir að þyngjast umtalsvert fyrir Þórsara.



