Topplið KFÍ í 1. deild karla var rétt í þessu að vinna spennusigur á Borgnesingum 76-77. KFÍ hefur því 26 stig á toppi deildarinnar og nú þegar þrír deildarleikir eru eftir hjá Ísfirðingum. Reyndar hefur Skallagrímur ennþá betur innbyrðis gegn KFÍ en nánast hið lygilegasta þarf að gerast til að KFÍ komist ekki beint upp um deild.
Skallagrímur á enn einn leik til góða. KFÍ hefur nú leikið 15 leiki af 18 en Skallagrímur 14 af 18 og það munar einmitt 8 stigum núna á liðunum. KFÍ með 26 stig og Skallagrímur með 18 stig. Önnur lið í toppbaráttunni eiga síðri möguleika gegn KFÍ sem hefur betur innbyrðis gegn öðrum toppliðum. Skallagrímur þarf s.s. að vinna síðustu fjóra leiki sína og KFÍ að tapa þremur síðustu leikjunum sínum til þess að Skallagrímur vinni deildina og taki beint sæti í Iceland Express deildinni. KFÍ dugir því einn sigur til viðbótar til þess að verða deildarmeistari.
Konrad Tota var stigahæstur hjá Skallagrím í kvöld með 28 stig og 7 fráköst en Igor Tratnik heldur áfram að fara á kostum með Ísafjarðarliðinu þar sem hann sullaði niður 33 stigum í kvöld, tók 14 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Karfan.is heyrði í ,,allt muligt manninum“ Guðjóni Þorsteinssyni en Guðjón er meðstjórnandi í stjórn KKD KFÍ og íþróttafulltrúi hjá félaginu. Guðjón var staddur erlendis og var að vonum kátur með úrslit sinna manna og syrgði fjarveru sína. ,,Þetta er í fyrsta sinn í 30 ár sem ég missi af tveimur leikjum hjá KFÍ á einu og sama tímabilinu,“ sagði Guðjón sem þessa stundina er staddur í London.
Haukar 131-79 ÍA
Semaj Inge gerði 46 stig og tók 11 fráköst fyrir Hauka. Dagur Þórisson gerði 16 stig fyrir ÍA.
Þór Akureyri 75-72 Ármann
Óðinn Ásgeirsson með 15 stig og 17 fráköst fyrir Þór en Daði Berg Grétarsson var með 17 stig fyrir Ármenninga.
Hrunamenn 84-106 Þór Þorlákshöfn
Atli Örn Gunnarsson gerði 30 stig og tók 13 fráköst fyrir Hrunamenn. Hjá Þór var Richard Field með 33 stig og 12 fráköst.



