Jæja ég náði 50% árangri í spá minni í úrslitum austur- og vesturdeildanna. Spurs sópaði Memphis í úrslitum vesturdeidar, en ég hafði spáð Memphis sigri í sex leikjum (hvernig mér datt það í hug er ótrúlegt miðað við hvernig serían þróaðist!) og Miami sigraði Indiana í spennandi sjö leikja seríu nákvæmlega eins og ég spáði!
En að úrslitaviðureigninni sjálfri sem hefst kl. 01.00 aðfararnótt föstudagsins 7. júní að íslenskum tíma. Tvö bestu lið NBA deildarinnar í ár mætast í úrslitum og verður spennandi að sjá hvernig málin þróast. Leikmenn San Antonio hafa fengið góða hvíld (sem þeim veitti líklega ekki af) en Miami kemur úr erfiðri og langri keppni gegn Indiana. Fræðingar hafa velt sér mikið upp úr þvi hvort hvídlin hjá San Antonio muni gera þeim gott eða ekki og eins hvort leikmenn Miami séu þreyttir. Ég er á því að þetta skipti litlu máli þegar á hólminn er komið og að þessi jöfnu lið muni leggja allt í sölurnar til að verða meistari! Liðin spiluðu tvo leiki gegn hvort öðru í deildinni (Miami vann báða) en aldrei með fullmönnuð lið! San Antonio fékk meira að segja væna sekt frá skrifstofu NBA fyrir að hvíla Duncan, Parker, Ginobili og Danny Green í fyrri leiknum!!! Eric Spoelstra hvíldi síðan LeBron, Wade og Mario Chalmers í seinni leiknum!
San Antonio liðið er með frábært lið sem þar sem kjarninn hefur verið saman að því er virðist frá ómunatíð og þekkja vel inn á hvern annan auk þess að hafa einn besta og virtasta þjálfara deildarinna í Gregg Popovich. Tim Duncan er hjartað í liðinu og virðist sú taktík þjálfarans að halda mínútum Duncan og lykilmanna í lágmarki yfir tímabilið vera að skila sér í úrslitakeppninni. Tony Parker leikstjórnandi Spurs hefur sýnt í úrslitakeppninni að hann er enn einn af bestu leikstjórnendum NBA deildarinnar og nánast vann lokaleikinn gegn Memphis upp á sitt einsdæmi. Manu Ginobili sýndi ekki sitt rétta andlit í seríunni gegn Memhis en ef einhver hefur haft gott að þessari 10 daga hvíld þá er það Ginobili. Tiago Splitter miðherji liðsins hefur verið stöðugur í úrslitakeppninni og aðrir leikmenn hafa stigið upp þegar á hefur þurft að halda. Þriggjastigaskot Spurs gerðu útum seríuna gegn Memphis sem átti ekkert svar við leikskipulagi Spurs sem keyrðu óspart inn í teig og sendu síðan boltann út fyrir þriggjastigalínuna á lausa leikmenn sem hittu, að því er virtist í hverju einasta skoti. Það verður athyglisvert að sjá hvort Miami hafi fundið lausn á því. Popovich hefur haft góðan tíma til að fylgjast með því hvernig Indiana tókst að vinna þrjá leiki gegn Miami þar sem LeBron James virtist á köflum eini sóknarmaðirinn í liði Miami.
Miami liðið er með besta leikmann deildarinnar – LeBron James – innanborðs auk Dwyane Wade og Chris Bosh sem eru öngvir aukvisar heldur! Ray Allen – besta þriggjastigaskytta allra tíma – er einnig innanborðs. Þjálfari liðsins, Eric Spoelstra, hefur náð að gera svakalegt lið í kringum þessa leikmenn. Liðið spilar svakalega vörn og skorar mikið í hrönnum þegar þeim tekst vel upp en þurfi liðið að setja upp í sókninni vill boltinn leita til LeBron James sem byr eitthvað til trekk í trekk! Mario Chalmers er leikstjórnandi liðsins en oftar en ekki er það James sem stjórnar sókninni frá A-Ö. Miami lenti í vandræðum gegn hávöxnu liði Indiana en náðu svo að keyra yfir þá í sjöunda leik liðanna í úrslitum austurdeildarinnar.
Hvernig vinnur San Antonio?
EInfalt! Stoppa LeBron James! Nei þetta er ekki svo einfalt þótt það sé að sjálfsögðu stór þáttur. Kawhi Leonard verður eflaust settur til höfuðs LeBron að stórum hluta amk á meðan það skilar einhverju, þá verður hjálparvörnin – Duncan og Splitter – að vera tilbúin og loka á LeBron. Þá verður vörnin á veiku hliðinni að vera vakandi því LeBron er óhræddur við að treysta lipsfélögum sínum til að taka skot fyrir utan og hefur reyndar verið gagnrýndur fyrir það. Dwayne Wade og Chris Bosh voru ekkii upp á sitt besta í seríunni gegn Indiana en stigu þó upp í síðustu leikjunum. Miami liðið hefur sýnt að þeir geta unnið þegar aðrir leikmenn en LeBron eru ekki upp á sitt besta en þeir gera það ekki ef LeBron á slakan dag. Tony Parker mun eflaust halda uppteknum hætti og setja mikla pressu á leikstjórnendur Miami enda einn sá allra besti í deildinni í því auk þess sem hann verður að halda áfram að skora og mata félaga sína. Tim Duncan verður að fá boltann talsvert í sókninni en hann hefur verið með tæp 18 stig að meðaltali í úrslitakeppninni ásamt 9 fráköstum. Það sást greinilega í Indiana seríunni að Miami eru ekki sterkastir varnarlega í teignum og það verður San Antonio að nýta sér ætli þeir sér sigur. Manu Ginobili er stórt spurningarmerki en erfitt er að sjá San Antonio vinna viðureignina án framlags frá honum, hann hefur ekki fundið skotið sitt í úrslitakeppninni með rúm 38% skotnýtingu í tveggja stiga skotum og 32% í þriggja. Það verður athyglisvert að sjá hvernig San Antonio hefur nýtt hvíldina eða hvort þeir verði eitthvað ryðgaðir í fyrsta leiknum en þeir kláruðu seríuna gegn Memphis þann 27. maí!
Hvernig vinnur Miami?
Einfalt! LeBron James! LeBron er besti leikmaður deildarinnar og Miami stendur og fellur með því hvernig hann spilar. Hann þaf að ráðast á körfu San Antonio eins og enginn verði morgundagurinn! Ekki er hægt að gera lítið úr mikilvægi drengsins því hann spilar flestar mínútur allra í úrslitakeppninni (rúmar 42 mínútur per leik), er með 26.4 stig, 7,3 fráköst og 6.4 stoðsendingar (tölur sem minna á Larry Bird þegar hann og Boston voru upp á sitt besta!). Þá er hann að taka 8.5 víti að meðaltali í leik og hann verður að komast jafnoft eða oftar á línuna í þessari viðureign! Dwayne Wade (sem á við meiðsli að stríða á í hné) og Cris Bosh verða að stíga upp og eiga góða leiki í öllum leikjunum og Wade verður að geta spilað vörn gegn Parker ef ekki á illa að fara. Udonis Haslem hefur verið undir ratsjánni en hann getur opnað vörn San Antonio ef hann hittir (og þorir að skjóta) við vítateiginn. Ray Allen hefur ekki sýnt sitt besta í úrslitakeppninni en steig þó upp í lokaleiknum gegn Indiana og setti niður 3 af 5 þriggjastigaskotum sínum, þessi mikla skytta verður að setja niður skotin sín en hann setti aðeins 9 af 34 í níu leikjum þar á undarn. Athyglisvert verður einnig að fylgjast með Chris Anderson “Birdman” sem átti svakalega seríu gegn Indiana og setti niður 16 af 18 skotum sínum!
Hvaða leikmenn utan stórstjarnanna geta skipt sköpum í viðureigninn?
Hjá Miami gæti það vel orðið 34 ára gamall vandræðagemlingur sem kom til liðsins í janúar sl. “Birdman” Chris Anderson en hann hefur komið inná í leikjum með þvílíkum krafti að Miami liðið virðist stundum spila betur þegar hann er inná! Lætin og krafturinn kosta hann stundum leiki en hann var settur í leikbann af NBA í sjöttu viðureign Miami gegn Indiana og Indiana vann þann leik nokkuð örugglega Birdman var með 7,1 stig (82,6% nýting!!!!) 4,1 frákast og 1,3 blokkuð skot í úrslitakeppninni. Þá má ekki gleyma að síðan Birdman kom til Miami hefur liðið unnið 52 leiki og tapaði 7! Þá gæti Shane Battier gert góða hluti ef hann mætir aftur til leiks, en hann hann hefur verið alveg úti á túni í úrslitakeppninni!
Hjá San Antonio getur Kawhi Leonard verið þessi leikmaður. Mikið mun mæða á honum varnarlega gegn LeBron James en Leonard hefur verið besti varnarmaður San Antonio í vetur. Leonard hefur einnig látið til sín taka sóknarmegin og er með 13 stig að meðaltali í úrslitakeppninni (Ginobili er með 11.5 stig!), stolið flestum boltum (1,6 per leik) auk þess að rífa niður átta fráköst per leik!
Ég vonast að sjálfsögðu eftir sjö leikja úrslitaseríu með mörgum jöfnum leikjum og vonandi framlengingum í hverjum leik! Það verður þó líklega ekki raunin en ég á MJÖG erfitt með að gera upp á milli þessara liða en spái þó að LeBron James verði enn og aftur sá sem heldur Miami á floti og tryggir þeim sigur að lokum í þriðja heimaleik liðsins þann 20. júní 2013!
Spá: Miami Heat 4 – San Antonio Spurs 2
Hannes Birgir Hjálmarsson 5. júní 2013