Í kvöld varð það ljóst að liðin sem núna eru í fimm efstu sætum 1. deildar munu skipa úrslitakeppnina. Skallagrímur vann góðan 78-69 útisigur á Þór Akureyri og lokaði þar með á að önnur lið í sætum 6-10 í deildinni kæmust í úrslitakeppnina.
Silver Laku var atkvæðamestur í liði Skallagríms í kvöld með 28 stig og 5 fráköst en hjá heimamönnum í Þór var Óðinn Ásgeirsson með 17 stig og 7 fráköst.
Framlengja varð á Skipaskaga þegar nýliðar ÍA tóku á móti Valsmönnum. Staðan að loknum venjulegum leiktíma 87-87 þar sem Björgvin Rúnar Valentínusson jafnaði metin fyrir Val þegar 13 sekúndur voru til leiksloka. Eftir fyrstu framlenginguna var enn jafnt og staðan 97-97 þar sem Halldór Jónsson jafnaði metin fyrir Skagamenn af vítalínunni þegar 26 sekúndur voru eftir. Svo fór þó að lokum að Valsmenn lönduðu sigri 106-114.
Dagur Þórisson var stigahæstur í liði ÍA með 21 stig og 14 fráköst en í liði Vals fór Björgvin Rúnar Valentínusson á kostum með 32 stig og 11 fráköst.
Haukar sóttu tvö mikilvæg stig í Þorlákshöfn og tryggðu að Þór kæmist ekki upp fyrir sig í röðun úrslitakeppninnar. Lokatölur í Höfninni voru 65-72 Haukum í vil þar sem Semaj Inge gerði 19 stig og stal 6 boltum. Hjá heimamönnum í Þór var Richard Field með 27 stig og 10 fráköst.
Úrslit kvöldsins:
Þór Akureyri 69-78 Skallagrímur
ÍA 106-114 Valur
Þór Þorlákshöfn 65-72 Haukar
Eftirtalin lið geta ein orðið deildarmeistarar og/eða skipað úrslitakeppnina:
KFÍ
Haukar
Valur
Skallagrímur
Þór Þorlákshöfn
Ísfirðingar þurfa aðeins einn sigur til viðbótar til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð.
Ljósmynd/ Torfi Magnússon: Valsmenn unnu spennusigur á ÍA í kvöld eftir tvíframlengdan leik á Skipaskaga.



