spot_img
HomeFréttirÚrslit í Þorlákshöfn hjá MB95

Úrslit í Þorlákshöfn hjá MB95

11:15

{mosimage}

 

(Verða svona tilþrif í Þorlákshöfn um helgina?) 

 

Um helgina verða úrslit hjá 11 ára minniboltastrákunum. Um 20 lið hafa leikið í riðlakeppninni í vetur sem hefur verið jöfn og spennandi. Það eru sex lið sem taka þátt í úrslitunum. Þau eru Þór, Þorlákshöfn (24 stig), Breiðablik (20), UMFN (16), KR (11), Keflavík (6) og Stjarnan (0). Í sviganum eru talin upp heildarstigafjöldinn sem liðin hafa innbyrt í a-riðli. Þessar tölur segja ekki allt um styrkleika liðanna þar sem liðin hafa leikið mismunandi marga leiki í a-riðli.

 

Karfan.is hvetur körfuknattleiksáhugamenn til að mæta í Þorlákshöfn um helgina og sjá góðan körfuknattleik og efnilega stráka. Það eru nokkrir hlutir sem karfan.is vill benda á varðandi þetta mót. Flest öll liðin í úrslitunum eru með mjög hæfa þjálfara (Jón Kr. Gíslason, Kristinn Óskarsson, Snorri Örn og …) Margir leikmenn liðanna sem munu eigast við þessa helgi eru með góð körfuknattleiksgen í sér. Flest liðin eru með leikmenn sem eru með mikla tækni miðað við aldur. 

 

Miðað úrslit leikja í síðustu tveimur þá teljast Kópavogsbúar líklegir til að verða Íslandsmeistarar. Breiðabliksliðið er mjög vel þjálfað og er leitt áfram af hinum stórefnilega leikmanni Oddi Kristjánssyni. Þrátt fyrir að hafa ekki tapað leik í a-riðli þá er liðið brothætt, samanber síðasti leikur liðsins í þriðju umferð Íslandsmótsins. Í þeim leik skoraði Oddur 38 stig af 48 á móti KR í jöfnum leik.

 

Þórsliðið verður einnig að teljast líklegt til stórræða. Þeir grænu eru vel þjálfaðir og eru með líkamlega sterkt og vel spilandi lið sem hefur leikið vel í vetur og er á heimavelli. Síðustu ár hefur verið mjög gott minniboltastarf hjá Þór, sem sést m.a. á góðum 7. flokki þeirra og góðu 1995 liði.

 

Njarðvíkurliðið er mjög gott og er með hinn magnaða Maciek, en hann er búinn að troða nokkrum sinnum í leikjum í vetur. Þrátt fyrir að Maciek sé líkamlega sterkur þá er hann alhliða leikmaður, með gott langskot og ágæta boltatækni. Hann lék vel í úrslitunum í 7. flokki. Ef Njarðvík mætir með fullmannað lið og fær gott framlag frá öllum hópnum þá gætu þeir nælt sér í verðlaunapening.

 

Keflavíkurliðið er með mikla breidd og marga leikmenn sem geta skorað mikið. Ásbjörn, Aron og Tómas eru sprækustu menn liðsins, en næstu menn eru einnig góðir. Liðið fékk nýjan þjálfara á miðju keppnistímabili og ef Kristinn Óskarsson hefur náð að móta liðið nægilega að sínum leikstíl þá mun Keflavík koma á óvart á þessu móti. Flestir leikmenn liðsins hafa æft körfu mjög lengi og margir þeirra eru synir keflvískra íþróttamanna. Liðinu bættist góður liðstyrkur síðasta haust er efnilegur Valsmaður (Sigurður) flutti á Suðurnesin og hóf að æfa með liðinu.

 

Stjörnuliðið er þjálfað af Jóni Kr. Gíslasyni. Margir leikmenn Stjörnunar hafa æft undir handleiðslu Jóns í um fimm ár. Liðið hans Jóns er gott og leikmenn hans eru líkamlega sterkir og finnst ekki leiðinlegt að berjast. Sonur Jóns (Dagur Kár) leikur með liðinu og er hann miklu betri en pabbinn var á sama aldri. Stjarnan er með fleiri aðra góða leikmenn, t.d. miðherjann Tómas Þ. Karfan.is á von á því að ungir Stjörnustrákar eigi eftir að koma á óvart um helgina eins og nokkur önnur Stjörnulið hafa gert í vor.

 

KR liðið hefur ekki leikið vel í vetur og var heppið að falla ekki niður í b-riðil í síðasta móti (það varð hlutskipti Fjölnisdrengja að falla). KR er með þrjá til fjóra efnilega leikmenn á eldra ári. Einn þeirra heitir Þorgeir og er mjög flinkur leikmaður m.v. hæð. KR liðið hefur þurft að nota um 5-6 leikmenn úr 10 ára liðinu sínu til að ná í lið. Þeir leikmenn eru litlir en ágætir körfuknattleiksmenn. KR þarf að mæta með sína bestu leikmenn, leika vel og mæta með góða þjálfara til þess að forðast fall. Þjálfaralega séð hefur KR liðið verið í tómu rugli í vetur. Þrír þjálfarar hafa komið að liðinu í vetur og þeir hafa verið misgóðir og misáhugasamir.

 

Mynd af www.vf.is – Maciek Baginski treður fyrir Njarðvíkinga í Samkaupsmótinu á dögunum. Myndina tók Þorgils Jónsson, blaðamaður og ljósmyndari hjá Víkurfréttum – [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -