6:00
{mosimage}
Ná Blikar að verja titilinn á heimavelli og verða Íslandsmeistarar aftur?
Um helgina verða úrslit í 7. flokki drengja (leikmenn fæddir 1995 og síðar) í körfuknattleik. Mótið verðu í Smáranum og í lokakeppninni leika: Breiðablik, UMFN, Stjarnan, Þór (Þorlákshöfn) og KR. Í vetur var leikið í fimm riðlum í þessum flokki og mættu 22 lið til leiks.
Breiðablik eru núverandi Íslandsmeistarar í þessum aldursflokki. Í vetur hafa flestir innbyrðisleikir Breiðabliks, Stjörnunnar og UMFN verið nokkuð spennandi. Í þessum leikjum hefur Breiðablik fimm sigra, UMFN þrjá sigra og Stjarnan einn. Það má telja líklegt að þessi þrjú lið verði í þremur efstu sætunum. Lið Þórs er nokkuð sprækt og lék mjög vel í síðasta móti og gæti með góðum leik strítt hinum liðunum. Lið KR er óskrifað blað, liðið hefur falið sig í b-riðli í allan vetur og það verður gaman að sjá hvort þeir hafa nægilegan styrk til að geta leikið á móti a-riðils liðunum.
Það eru margir hlutir sem munu hafa áhrif á það hvernig mótið fer um helgina. Þeir sem þekkja til úrslita í yngri flokkum vita að við hefðbundnu áhrifavaldanna bætast nýir við, svo sem hvernig liðin munu aðlagast KKÍ dómurum, ,,aukastigspókerinn”, stuðningur af pöllunum og t.d. niðurröðunin.
Breiðablik
Blikar eru með góðan þjálfara sem hefur haldið vel utan um liðið síðustu ár. Þeir hafa aðeins tapað einum leik í vetur, verða á heimavelli og ættu að eiga góða möguleika á því að halda Íslandsmeistaratitlinum áfram. Breiðablik er með lágvaxið lið, en það hefur ekki komið að sök í vetur. Leikur liðsins byggist að mestu í kringum hinn knáa Odd Kristjánsson, ef liðið ætlar að verja titilinn þá þurfa hinir í liðinu að stíga upp og vera virkir í leik liðsins.
UMFN
Njarðvíkingar eru með hörkulið í þessum flokki. Liðið er með tvo góða stóra menn og ágætis bakverði. Besti leikmaður liðsins er hinn magnaði Maciej Stanislav Baginski, hann getur leikið allar stöður á vellinum og er mikið efni. Fyrir stuttu var Maciej valinn í 1993 landsliðið. Ef UMFN ætlar sér að landa titli í þessum flokki þá þurfa þeir að leika góða vörn, nýta hæð sína og forðast villuvandræði.
Stjarnan
Stjörnuliðið hefur tekið miklum framförum í vetur. Liðið er þjálfað af Jóni Kr. Gíslasyni sem ekki þarf að kynna íslenskum körfuknattleiksmönnum. Jón er búinn að vera með þessa stráka í a.m.k. sex ár. Það sem Stjörnuliðið hefur fram yfir UMFN og Breiðablik er að liðið hefur mikla breidd. Auk þess má nefna að liðið er nýkomið frá hinu erfiða Scania-Cup móti, þar sem liðið stóð sig ágætlega. Ferð á Scania hefur reynt íslenskum liðum gott veganesti fyrir úrslitakeppni. Ef Stjarnan leikur eins og þeir hafa gert best í vetur, nýta styrkleika sína og ná upp góðri vörn þá eiga þeir góða möguleika á því vinna lokamótið.
Þór
Síðustu ár hefur drengjastarfið í körfu í Þorlákshöfn verið nokkuð öflugt og hefur m.a. birst í góðum 1994 og 1995 árgöngum. Þórsliðið er með góðan þjálfara sem hefur verið með þennan hóp lengi. Þórsliðið byrjaði keppnistímabilið í a-riðli og var óheppið að falla niður. Í annarri umferðinni sem leikin var í Þorlákshöfn léku þeir vel og unnu það b-riðils mótið létt. Í þriðju umferðinni léku þeir ágætlega og náðu að halda sér uppi og voru ekki langt frá því að lenda fleiri sigrum.
KR
Eins og hin liðin í þessum flokki er KR með góðan þjálfara (reyndar tvo góða). Liðið hefur æft mikið í vetur og tekið framförum. Með góðum leik og mikilli baráttu þá getur KR-liðið unnið leik eða leiki í þessum úrslitum.
Niðurröðun og tímasetningar:
| Lau. 29.mar.2008 | 13.00 | Smárinn | UMFN – KR | ||
| Lau. 29.mar.2008 | 14.00 | Smárinn | Breiðablik – Þór Þorl. | ||
| Lau. 29.mar.2008 | 15.00 | Smárinn | Stjarnan – KR | ||
| Lau. 29.mar.2008 | 16.00 | Smárinn | UMFN – Þór Þorl. | ||
| Lau. 29.mar.2008 | 17.00 | Smárinn | Breiðablik – Stjarnan | ||
| Sun. 30.mar.2008 | 9.00 | Smárinn | Þór Þorl. – KR | ||
| Sun. 30.mar.2008 | 10.00 | Smárinn | UMFN – Stjarnan | ||
| Sun. 30.mar.2008 | 11.00 | Smárinn | Breiðablik – KR | ||
| Sun. 30.mar.2008 | 12.00 | Smárinn | Stjarnan – Þór Þorl. | ||
| Sun. 30.mar.2008 | 13.00 | Smárinn | Breiðablik – UMFN | ||
Mynd tekin af heimasíðu Breiðabliks



